Hoppa yfir valmynd
28. apríl 1999 Dómsmálaráðuneytið

Skýrsla nefndar um sérstakar rannsóknaraðferðir lögreglu

Aðferðir lögreglu við rannsókn brotamála hafa á síðustu árum hlotið aukna athygli og umræðu. Á árinu 1997 urðu miklar umræður um starfsemi ávana- og fíkniefnadeildar lögreglunnnar í Reykjavík, einkum um starfshætti hennar og aðferðir við að upplýsa brotamál og að setja þyrfti reglur um svokallaðar óhefðbundnar eða sérstakar rannsóknaraðferðir lögreglu.

Í umræðum á Alþingi um málefni þetta kom fram að setja þyrfti skýrari reglur um óhefðbundnar rannsóknaraðferðir lögreglu og lýsti dómsmálaráðherra því yfir að hann myndi fela ríkislögreglustjóra að taka mál þessi til athugunar. Í kjölfar þessara umræðna fól dómsmálaráðherra ríkislögreglustjóra, í júlímánuði 1997, að kanna hvort og þá með hvaða hætti ætti að setja reglur á þessu sviði. Með bréfi ríkislögreglustjóra til ráðuneytisins, dags. 31. desember 1997, barst svar ríkislögreglustjóra um efnið. Var því lýst í bréfinu að farið hefði verið yfir þetta málasvið, rannsóknaraðferðir lögreglu, til þess að meta hvernig væri rétt að skipa þessum málum. Víða hefði verið leitað upplýsinga og heimilda enda væru rannsóknaraðferðir lögreglu ofarlega á baugi í flestum nágrannalöndum okkar, ekki síst á Norðurlöndum þar sem öflugar nefndir hefðu unnið að athugunum og tillögugerð á þessu sviði. Með vísan til þessa lagði ríkislögreglustjóri til að skipuð yrði nefnd fimm manna, einkum saksóknara, en einnig fyrirsvarsmanna í lögreglu til þess að kanna rækilega rannsóknir og rannsóknaraðferðir lögreglu í baráttunni gegn afbrotum, sérstaklega nýjum eða nýlegum tegundum afbrota, fara yfir heimildir lögreglunnar til rannsókna og til að beita óhefðbundnum rannsóknaraðferðum. Nefndin skyldi einnig gera tillögur um fyrirkomulag óhefðbundinna rannsóknaraðferða og lagabreytingar sem kunna að þykja nauðsynlegar til að lögreglan geti með fullnægjandi hætti tekist á við nýjustu afbrotaaðferðir.

Í samræmi við tillögur ríkislögreglustjóra skipaði dómsmálaráðherra, þann 26. janúar 1998, nefnd til þess að fjalla um óhefðbundnar rannsóknaraðferðir lögreglu.
Í nefndina voru skipuð Björg Thorarensen skrifstofustjóri í dómsmálaráðuneytinu sem jafnframt var formaður, Atli Gíslason hæstaréttarlögmaður, Ásgeir Karlsson lögreglufulltrúi hjá lögreglustjóranum í Reykjavík, Bogi Nilsson ríkissaksóknari, Björn Halldórsson aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra og Egill Stephensen saksóknari hjá lögreglustjóranum í Reykjavík. Í aprílmánuði 1998 lét Björn Halldórsson af störfum í nefndinni vegna löggæslustarfa í Bosníu og Herzegovinu. Í hans stað var skipaður af hálfu ríkislögreglustjóra Þórir Oddsson vararíkislögreglustjóri.

Verkefni nefndarinnar samkvæmt skipunarbréfi hennar var tvíþætt. Annars vegar átti hún að kanna rannsóknir og rannsóknaraðferðir lögreglu í baráttunni gegn afbrotum, sérstaklega í nýjum eða nýlegum tegundum afbrota og fara yfir heimildir lögreglunnar til rannsókna og til að beita óhefðbundnum rannsóknaraðferðum, og hins vegar að gera tillögur um reglur um óhefðbundnar rannsóknaraðferðir og lagabreytingar sem kunna að þykja nauðsynlegar til að lögreglan geti með fullnægjandi hætti tekist á við nýjustu afbrotaaðferðir.

Nefndin hélt alls 20 fundi á árunum 1998 og 1999. Á vegum hennar fór fram víðtæk gagnaöflun, einkum um reglur annarra Norðurlanda á þessu sviði svo og nokkurra annarra Evrópuríkja og þá vinnu sem þar stendur yfir við gerð nýrra reglna. Einnig var litið til vinnu undirnefndar um fíkniefni sem starfað hefur á vegum ríkjanna í Schengen samstarfinu og hefur gert tillögur um samræmingu á ákveðnum rannsóknaraðferðum lögreglu í baráttu gegn fíkniefnum og alþjóðlegt samstarf Schengen ríkja á því sviði. Aflað var allra úrskurða frá Héraðsdómi Reykjavíkur á grundvelli 86. ogr. 87. gr. laga 19/1991 um meðferð opinberra mála varðandi hleranir, hlustanir, myndatökur og hljóðupptökur á árabilinu 1995-1998 til að kanna hvernig þessum lagaákvæðum er beitt. Upplýsinga um afbrotaþróun og tölfræði um fjölda mála á undanförnum árum var aflað hjá forvarna- og fræðsludeild embættis lögreglustjórans í Reykjavík.

Nefndin hefur nú lokið störfum og skilað dómsmálaráðherra ítarlegri skýrslu. Helstu tillögur nefndarinnar eru um breytingar á ákvæðum 86.-88. gr. laga um meðferð opinberra mála, að settar verði reglur um upplýsingagjafa, einkum um samskipti lögreglu og upplýsingagjafa og um greiðslur eða aðra umbun fyrir upplýsingar, reglur um tálbeitur, reglur um afhendingu undir eftirliti og alþjóðleg sýndarviðskipti með fíkniefni. Þá leggur nefndin til ýmsar breytingar á lögum og verklagsreglum til þess að stuðla að vitnavernd.

Skýrsla nefndarinnar verður nú send réttarfarsnefnd og refsiréttarnefnd til frekari úrvinnslu, svo og ríkissaksóknara, en gert er ráð fyrir að ríkissaksóknari móti og setji reglur á ýmsum sviðum samkvæmt tillögum nefndarinnar.

Skýrslan er aðgengileg í heild sinni á heimasíðu dóms- og kirkjumálaráðuneytisins.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum