Nr. 034, 30. apríl 1999: Opnun heimasíðu sendiráðs Íslands í Brussel.
Fréttatilkynning
frá utanríkisráðuneytinu
Nr. 034
Utanríkisráðuneytið hefur unnið að bættu aðgengi að upplýsingum um EES-samninginn með uppsetningu EES-vefsetursins á heimasíðu ráðuneytisins sem geymir EES-samninginn og margvíslegt efni honum tengt á slóðinni http://www.ees.is. Enn eitt skref í átt að aukinni þjónustu á þessu sviði var stigið í dag, 30. apríl 1999, með opnun heimasíðu sendiráðs Íslands í Brussel. Þar er að finna aðgengilegar upplýsingar um EES-samninginn og önnur mál innan Evrópu á slóðinni http://www.islande.be.
Heimasíða sendiráðsins veitir ekki einungis erlendum aðilum upplýsingar um Ísland á sviði stjórnmála, viðskipta og menningar heldur er henni ekki síður ætlað að veita íslenskum aðilum hagnýtar upplýsingar um málefni EES-samningsins sem og önnur mál innan Evrópu. Heimasíðan er á fjórum tungumálum, íslensku, ensku, frönsku og flæmsku og verður um 350 síður fullgerð. Í upphafi verða einungis íslenski og enski hlutinn tekinn í notkun en innan tíðar sá franski og flæmski.
Heimasíðan skiptist í tvo megin hluta, annarsvegar upplýsingabrunnur fyrir erlenda aðila og hins vegar fyrir íslenska aðila. Íslenski hlutinn skiptist í 7 flokka sem eru: Sendiráð, Ísland og EES, verslun og viðskipti, menning, spurt og svarað, fréttatafla og nytsamlegar tengingar. Sérstök áhersla er lögð á miðlun hagnýtra upplýsinga um EES-samninginn og verða m.a. birtar mánaðarlegar skýrslur um samninginn og einstök svið hans sem skrifaðar eru af starfsfólki sendiráðsins. Erlendi hluti síðunnar skiptist í 7 flokka sem eru: Sendiráð, verslun og viðskipti, ferðamál, alþjóðleg málefni, menning og listir, stjórnskipulag og stjórnmál og stefna. Hver þessara 7 flokka í íslenska og erlenda hlutanum skiptast í fjölmarga undirflokka og tengingar. Opnun síðunnar er mikilvægur áfangi í aukinni þjónustuviðleitni ráðuneytisins og verður hún þróuð áfram eftir tilefni og aðstæðum.
Starfshópur innan sendiráðsins sá um hönnun og vinnslu heimasíðunnar í samvinnu við fyrirtækið MCW í Þýskalandi sem annaðist tæknilega framkvæmd verksins.
Utanríkisráðuneytið,
Reykjavík, 30. apríl 1999.