Hoppa yfir valmynd
30. apríl 1999 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

PAME-skrifstofa opnuð á Akureyri

Guðmundur Bjarnason umhverfisráðherra opnaði í dag skrifstofu Norðurskautsráðsins um vernd gegn mengun hafsins á norðurslóðum (PAME) á Akureyri, við athöfn af því tilefni. Soffía Guðmundsdóttir umhverfisverkfræðingur hefur verið ráðin framkvæmdastjóri skrifstofunnar.

Norðurskautsráðið var stofnað í september 1996 af Norðurlöndunum, Bandaríkjunum, Kanada og Rússlandi. Á vegum ráðsins eru nú starfandi fjórir vinnuhópar:

  • AMAP-hópurinn, sem sér um að samræma vöktun á norðurhjara,
  • EPPR-hópurinn um sameiginlegar aðgerðir gegn mengunaróhöppum, 
  • hópur um verndun gróður og lífvera á norðurslóðum, en skrifstofa þess verkefnis, svokölluð CAFF-skrifstofa, var opnuð á Akureyri árið 1996
  • og PAME (Protection of Arctic Marine Environment).

Fyrir rúmu ári var á vegum PAME hafist handa við gerð svæðisbundinnar framkvæmdaáætlunar og hafa fulltrúar íslenskra stjórnvalda tekið virkan þátt í gerð hennar. Áætlunin var lögð fram og samþykkt á ráðherrafundi Norðurskautsráðsins í Iqaluit í Kanada 1998. Forgangsverkefni skv. áætluninni eru: stuðningur við gerð framkvæmdaáætlunar fyrir heimskautahluta Rússlands, stuðningur við áframhaldandi aðgerðir til að draga úr losun þungmálma og þrávirkra lífrænna efna og undirbúningur að gerð samræmdra áætlana um strandsvæði.

Á fundinum í Iqaluit var samþykkt tilboð Íslands um að hýsa PAME-skrifstofuna næstu tvö árin. Umhverfisráðherra ákvað síðan að PAME-skrifstofan skyldi staðsett á Akureyri. Á því kjörtímabili sem nú er að líða hafa því opnað tvær alþjóðlegar umhverfisskrifstofur á Akureyri, PAME og CAFF, auk Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar, sem sinnir málefnum norðurheimskautsins.

Fréttatilkynning nr. 7/1999
Umhverfisráðuneytið

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta