Nr. 035, 03. maí 1999: Undirritun samninga við Ástralíu og Nýja Sjáland um gagnkvæma viðurkenningu á samræmismati
FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
_____________
Hinn 30. apríl 1999 voru undirritaðir í Brussel samningar EFTA/EES-ríkjanna við Ástralíu og Nýja Sjáland um gagnkvæma viðurkenningu á samræmismati (Mutual Recognition Agreements on Conformity Assessment). Samningar af þessu tagi eru liður í samskiptum ríkja til að draga úr tæknilegum viðskiptahindrunum og tryggja sem frjálsast flæði vöru. Samningarnir fela í sér að tilnefndir aðilar frá hvorum samningsaðila eru viðurkenndir sem hæfir til að votta að vara uppfylli kröfur sem gerðar eru til hennar í landi hins. Samningssviðið eru eftirlitsskyldar vörur svo sem fjarskiptabúnaður, rafmagnsvörur, vörur sem falla undir ákvæði um rafsegulsamhæfi, vélar, lyf og lækningatæki.
Með samningnum um Evrópska efnahagssvæðið var gagnkvæmri viðurkenningu sem hér um ræðir komið á innan þess. Við gerð samningsins var fyrirsjáanlegt að Evrópusambandið myndi ganga til samninga um gagnkvæma viðurkenningu á samræmismati við lönd utan svæðisins. Til að tryggja að slíkir samningar hefðu ekki truflandi áhrif á vöruflæði innan Evrópska efnahagssvæðisins var þess getið í bókun við EES-samninginn að gengi Evrópusambandið til slíkra samninga skyldu EFTA/EES löndin gera hliðstæða samninga við sömu ríki. Samningarnir við Ástralíu eru hinir fyrstu sem lokið er af hálfu EFTA/EES-ríkjanna. Fyrirséð er að gengið verði til samninga um gagnkvæma viðurkenningu á samræmismati við fleiri lönd þar sem Evrópusambandið hefur, auk samninga sinna við Ástralíu og Nýja Sjáland, gert slíka samninga við Bandaríkin og Kanada.
Reykjavík, 3. maí 1999.