Nr. 040, 15. maí 1999: Fundur utanríkisráðherra Norðurlandanna, Eystrasaltsríkjanna og Rússlands í St. Pétursborg
FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
________
Nr. 040
Dagana 14.-16. maí 1999 er haldinn fundur utanríkisráðherra Norðurlandanna, Eystrasaltsríkjanna og Rússlands ("5+3+1") í St. Pétursborg þar sem einkum er fjallað um svæðisbundna samvinnu ríkjanna.
Í tengslum við fundinn undirrituðu í dag Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra Íslands, Knut Vollebæk utanríkisráðherra Noregs og N.A. Érmakov formaður sjávarútvegsráðs Rússlands þríhliða rammasamning landanna um tiltekna þætti í samstarfi á sviði sjávarútvegs. Enn fremur voru undirritaðar tvíhliða bókanir Íslands og Noregs annars vegar og Íslands og Rússlands hins vegar. Samningurinn og bókanirnar, sem fylgja hjálagt, fela í sér samkomulag um þorskveiðar Íslendinga í Barentshafi.
Í bókununum, sem gerðar eru á grundvelli þríhliða samningsins, felst að Íslendingar fá á þessu ári 8.900 lesta þorskkvóta sem skiptist til helminga milli lögsögu Noregs og Rússlands. Kvótinn samsvarar 1,86% af leyfilegum heildarafla á þorski í Barentshafi og helst það hlutfall út samningstímann. Auk þess er gert ráð fyrir 30% aukaafla. Samningurinn og bókanirnar gilda í fjögur ár og framlengjast um fjögur ár í senn sé samningnum ekki sagt upp af hálfu einhvers aðilanna.
Í bókun Íslands og Noregs er gert ráð fyrir að íslensk skip veiði 4.450 lestir af þorski á þessu ári í norskri lögsögu. Norsk skip fá á þessu ári að veiða 500 lestir af löngu, keilu og blálöngu á línu í íslenskri lögsögu utan 12 mílna og sunnan 64°N og 17 þúsund lestir af loðnu í íslenskri lögsögu norðan 64°30}N á tímabilinu frá 20. júní til 15. febrúar.
Í bókun Íslands og Rússlands felst að íslensk skip geti veitt 4.450 lestir af þorski í rússneskri lögsögu á þessu ári. Þar af munu Rússar bjóða íslenskum útgerðum 37,5% eða 1.669 lestir til kaups á markaðsverði.
Í báðum bókununum er miðað við að fari leyfilegur heildarafli á þorski í Barentshafi niður fyrir 350.000 lestir falli veiðar Íslendinga úr stofninum niður sem og veiðar norskra fiskiskipa í íslenskri lögsögu.
Samningurinn og bókanirnar öðlast formlega gildi þegar aðilar hafa tilkynnt hver öðrum að nauðsynlegri innlendri málsmeðferð vegna gildistöku þeirra sé lokið. Leitað verður heimildar Alþingis til staðfestingar samningsins og bókananna þegar það kemur saman. Á utanríkisráðherrafundi ríkjanna níu í dag hefur verið rætt um aukna samvinnu þeirra, m.a. á norðurslóðum og á Eystrasaltssvæðinu, stækkun Evrópusambandsins og hugsanleg áhrif hennar á svæðisbundna samvinnu, Eystrasaltsráðið, Barentsráðið, Norðurskautsráðið og öryggismál í Evrópu. Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra flutti ræðu um Norðurskautsráðið. Ráðherrarnir lýstu allir yfir ánægju sinni með jákvæða þróun í samskiptum ríkjanna níu og svæðisbundna samvinnu.
Utanríkisráðherra átti í gær fund með utanríkisráðherra Eistlands, Toomas Hendrik Ilves, og ræddu þeir m.a. um tvíhliða samskipti ríkjanna, Washingtonfund NATO-ríkjanna og stækkun Atlantshafsbandalagsins.
Á sérstökum fundi Halldórs Ásgrímssonar utanríkisráðherra með Igor S. Ivanov utanríkisráðherra Rússlands var m.a. fjallað um viðskipti ríkjanna sem byggja á gömlum grunni, samninginn og bókanirnar um þorskveiðar Íslendinga í Barentshafi, sem báðir fögnuðu, ástandið á Balkanskaga og samvinnu innan Evrópuráðsins og Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE).
Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 15. maí 1999.
Reykjavík, 15. maí 1999.