Nr. 048, 27. maí 1999. Ráðherrafundur OECD
Sameiginleg fréttatilkynning
utanríkisráðuneytisins og fjármálaráðuneytisins
Nr. 048
Dagana 26.-27. maí 1999 var haldinn í París árlegur ráðherrafundur Efnahagssamvinnu- og þróunarstofnunarinnar OECD. Í fjarveru Halldórs Ásgrímssonar, utanríkisráðherra, og Geirs H. Haarde, fjármálaráðherra, sátu fundinn fyrir Íslands hönd Sverrir Haukur Gunnlaugsson, ráðuneytisstjóri í utanríkisráðuneytinu, og Árni Kolbeinsson, ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu.
Á fundinum var fjallað um stöðu og horfur í efnahagsmálum, meðal annars í ljósi þeirra erfiðleika sem gætt hefur á fjármálamörkuðum í Asíu, Suður-Ameríku og víðar undanfarin misseri. Þá var rætt um alþjóðaviðskiptamál og efnahagssamvinnu ríkja innan sem utan OECD, meðal annars í ljósi fyrirhugaðra viðræðna á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO). Í því sambandi var haldinn í fyrsta sinn sérstakur fundur aðildarríkja OECD með fulltrúum sjö ríkja utan OECD og skipst á skoðunum um efnahags-, viðskipta- og þróunarmál.
Ennfremur fjallaði ráðherrafundur OECD um ástandið á Balkanskaga og það endurreisnarstarf sem bíður alþjóðasamfélagsins. Var stuðningi OECD heitið við þau verkefni sem samfélag þjóðanna stendur frammi fyrir í viðleitni til að tryggja frið, þróun lýðræðislegs stjórnarfars og efnahagslegan stöðugleika á Balkanskaga. Áréttað var mikilvægi þess að samræma og samhæfa aðgerðir í þágu uppbyggingar og styrkja samstarfsverkefni OECD við ríki á svæðinu.
Í umræðum um almenna stöðu efnahagsmála kom fram að þær efnahagsaðgerðir sem gripið hefði verið til í ríkjum innan sem utan OECD hefðu skilað umtalsverðum árangri og stuðlað að auknum stöðugleika á alþjóðafjármálamörkuðum. Staðan er þó nokkuð mismunandi. Í sumum ríkjum, einkum Bandaríkjunum og ýmsum smærri ríkjum í Evrópu, er hagvöxtur viðunandi og atvinnuleysi í lágmarki, en annars staðar, til dæmis í Þýskalandi og Japan, er staðan lakari. Verðbólga er hins vegar víðast hvar lág og staða opinberra fjármála hefur batnað.
Af Íslands hálfu var lögð áhersla á mikilvægi almennra hagstjórnaraðgerða og frjálsra alþjóðaviðskipta. Ennfremur var bent á að í þeim ríkjum sem hefðu hrint í framkvæmd ýmsum skipulagsbreytingum á vinnumarkaði hefði staða atvinnumála batnað og atvinnuleysi minnkað. Loks var ítrekað að forsenda áframhaldandi hagsældar og aukins hagvaxtar fælist í fjölgun starfa.
Í umræðum um milliríkjaviðskipti var mikilvægi hins fjölþjóðlega viðskiptakerfis áréttað. Stefnt verður að því að ýta nýrri viðræðulotu um frekara frjálsræði í viðskiptum úr vör á ráðherrastefnu WTO undir lok þessa árs. Umfang slíkrar viðræðulotu skal vera nægilega víðtækt til að ná yfir og gæta jafnvægis milli ólíkra hagsmuna hinna ýmsu aðildarríkja WTO. Sérstaklega þarf að leggja áherslu á þarfir þróunarríkja og veita þeim tilhlýðilega aðstoð til að ávinningur þeirra af frjálsræði og markaðsopnun skili sér í sama mæli og til annarra ríkja.
Þegar er samkomulag innan WTO um að hefja nýjar viðræður á sviði landbúnaðar og þjónustuviðskipta um næstu áramót. Í máli fulltrúa Íslands kom fram að ný lota þyrfti að ná til fleiri viðfangsefna til að jafnvægi hagsmuna næðist. Lögð var áhersla á að lotan fjallaði einnig um iðnaðarvörur, þ.m.t. fisk og fiskafurðir, og stefndi að gerð fjölþjóðlegra reglna um fjárfestingar og samkeppnismál. Ennfremur ætti lotan að stuðla að viðskiptaliprun og frjálsri þróun rafrænna viðskipta. Markmiðið um sjálfbæra þróun ætti að gera að hluta af hinu fjölþjóðlega viðskiptakerfi og skipti þar miklu að ný lota legði sitt af mörkum með því að fjalla um tengsl viðskipta og umhverfis. Í því sambandi var lögð rík áhersla á afnám ríkisstyrkja til sjávarútvegs.
Ísland á um þessar mundir gott samstarf við nokkur lykilríki um meðhöndlun ríkisstyrkja til sjávarútvegs í nýrri lotu innan WTO. Í tengslum við ráðherrafund OECD átti íslenska sendinefndin jákvæðar viðræður um það samstarf með háttsettum fulltrúum Bandaríkjastjórnar. Ísland og fleiri ríki unnu að ákveðnu orðalagi um sjálfbæra fiskveiðistjórnun og áhrif ríkisstyrkja til sjávarútvegs í niðurstöðum ráðherrafundarins, sbr. 20. mgr. hjálagðrar fréttatilkynningar. Fyrir liggur að Ísland muni á næstunni leggja fram sérstaka tillögu til aðalráðs WTO um að setja afnám styrkja til sjávarútvegs með beinum hætti á dagskrá nýrrar viðræðulotu.
Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 27. maí. 1999.