Stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar
Í fremstu röð á nýrri öld
Upplýsingatækni
Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks Í fremstu röð á nýrri öld frá 28. maí 1999 er víða fjallað um upplýsingasamfélagið og nýja tækni. Ný upplýsingatækni verður nýtt í þágu efnahagslegra framfara og uppbyggingar í atvinnulífinu, vísindarannsókna, menntunar, lista og hvers kyns menningarmála um land allt.
Það verður eitt af markmiðum ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks á kjörtímabilinu að efla upplýsingaiðnað þannig að til verði ný störf um allt land sem höfða ekki síst til ungs fólks. Sköpuð verði skilyrði fyrir tilraunir og framkvæmd nýstárlegra hugmynda þar sem upplýsinga- og fjarskiptatækni gegna lykilhlutverki. Unnið verði að áframhaldandi vexti í útflutningi hugbúnaðar, vélbúnaðar, þjónustu og ráðgjafar á þessu sviði. Fjarskiptaþjónusta verði áfram í fremstu röð. Valmöguleikar og samkeppni verði tryggð, rekstrarskilyrði bætt og nýsköpun efld á fjarskiptamarkaði.
Einnig verður haldið áfram að sníða þjónustu ríkisins að nútíma tækni, t.d. með nettengingu þjónustustofnana og rafrænum viðskiptum. Upplýsingatækni og fjarþjónusta verði nýtt í auknum mæli innan heilbrigðisþjónustu, ekki síst til að bæta þjónustu við landsbyggðina
Á kjörtímabilinu er stefnt að einkavæðingu ríkisfyrirtækja. Tekjum af sölu ríkisfyrirtækja verði varið til að greiða niður skuldir ríkissjóðs, til að fjármagna sérstök verkefni í samgöngumálum og til að efla upplýsingasamfélagið.
Stefnuyfirlýsing ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks frá 28. maí 1999 er á vefslóð http://raduneyti.is/rikisstjorn/nr/57.