Hoppa yfir valmynd
1. júní 1999 Utanríkisráðuneytið

Nr. 050, 1. júní 1999. Ráðherrafundur EFTA í Lillehammer

Fréttatilkynning frá utanríkisráðuneytinu

Nr. 050

Ráðherrafundur EFTA var haldinn í Lillehammer í Noregi 1. júní 1999. Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra sat fundinn fyrir Íslands hönd. Á ráðherrafundinum var m.a. rætt um innra starf EFTA, EES-samninginn, samskipti EFTA við Evrópusambandið svo og samskipti EFTA við þriðju ríki.
Fríverslunarviðræður EFTA-ríkjanna við Kanada ber sem fyrr hæst í samskiptum EFTA við þriðju ríki. Viðræðunum var ýtt úr vör í formennskutíð Íslands fyrir ári síðan og ráðherrar EFTA hvöttu til þess að þeim yrði lokið fyrir næsta ráðherrafund EFTA í desember nk. Um leið lögðu ráðherrarnir áherslu á hið pólitíska mikilvægi fyrsta fríverslunarsamningsins milli Vesturálfu og Evrópu. Í framhaldi af væntanlegum fríverslunarsamningi við Kanada var ákveðið að kanna möguleika á fríverslunarviðræðum við Mexíkó og Chíle. Einnig var ákveðið að stefna að viðræðum um gerð fríverslunarsamnings við Suður-Afríku.
EFTA-ríkin munu áfram vinna að gerð samstarfsyfirlýsingar við Flóaráðið (Gulf Co-operation Council) og MERCOSUR, en svo nefnist fríverslunarbandalag Brasilíu, Argentínu, Úrúgvæ og Paragvæ.
Ráðherrar EFTA ákváðu að hefja undirbúning að endurskoðun EFTA- samningsins í ljósi gerbreyttra aðstæðna á sviði fríverslunar og alþjóðaviðskipta frá því að EFTA-samningurinn var undirritaður í Stokkhólmi 4. janúar 1960.
Framkvæmdastjórar Eftirlitsstofnunar EFTA og EFTA-dómstólsins sátu fundinn.
Ráðherrar EFTA áttu einnig sama dag fund með þingmannanefnd EFTA og ráðgjafanefnd EFTA. Á þessum fundum var m.a. skipst á skoðunum um EES og niðurstöður EES-ráðsfundarins 18. maí sl., framtíð EES-samningsins í ljósi þróunarinnar í Evrópu, sérstaklega með tilliti til stækkunar Evrópusambandsins, samskipti EFTA við ríki utan EES, tvíhliða samninga Sviss við Evrópusambandið og störf Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar.
Ákveðið var að William Rossier fastafulltrúi Sviss hjá EFTA og Alþjóðaviðskiptastofnuninni í Genf tæki við af Kjartani Jóhannssyni sem framkvæmdastjóri EFTA haustið 2000.



Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 1. júní 1999

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta