Hoppa yfir valmynd
8. júní 1999 Dómsmálaráðuneytið

Ræða við eldhúsdagsumræður á Alþingi

Ræða Sólveigar Pétursdóttur, dóms- og kirkjumálaráðherra, við eldhúsdagsumræður á Alþingi 8. júní 1999



Hæstv. forseti. Góðir tilheyrendur.

Þegar ég, á þessu vori, tek við stjórn ráðuneytis dóms- og kirkjumála eru mér efst í huga þær miklu breytingar sem orðið hafa á þeim málaflokkum á þessum áratug og fyrirrennari minn í starfi, Þorsteinn Pálsson, hafði forustu um að hrinda í framkvæmd. Þær breytingar sem gerðar hafa verið á dómstólaskipan og réttarfari hafa skapað okkur eitt skjótvirkasta dómstólakerfi álfunnar. Mikilvægar breytingar hafa einnig verið gerðar á skipulagi löggæslunnar sem tryggja okkur aukið öryggi borgaranna. Markmið okkar er að tryggja það öryggi með uppbyggingu grenndarlöggæslu og bættu samstarfi lögreglu og almennings. Ríkisstjórnin mun halda áfram endurbótum á réttarfarslögum og refsilögum í framhaldi af þeim breytingum sem þegar hafa verið gerðar.

Miklar breytingar hafa verið gerðar á fangelsinu á Litla-Hrauni og jafnframt hefur refsiúrræðum verið fjölgað með því að taka upp svokallaða samfélagsþjónustu. Áfram verður áhersla á úrbætur m.a. á sviði refsiframkvæmdar svo að loks verði hægt að loka meira en aldar gömlu hegningarhúsi í Reykjavík.

Landhelgisgæslan hefur verið efld á síðustu árum með bættum flugvélakosti og nú er komið að eflingu skipastóls hennar. Ríkisstjórnin tók á síðasta ári ákvörðun um að láta hefja byggingu nýs varðskips og verður það stærra og öflugra en þau varðskip sem við notum nú.

Það hafa orðið miklar breytingar á stjórnsýslu kirkjumála, breytingar sem miða að því að efla sjálfstæði þjóðkirkjunnar gagnvart ríkisvaldinu. Þegar við fögnum þúsund ára kristni hér á landi þá stendur þjóðkirkjan sterk og vel búin til að leiða trúarlíf þjóðarinnar á nýju árþúsundi.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er því heitið að gerð verði áætlun um sérstakt átak gegn fíkniefnavandanum í samstarfi við foreldra og skóla, frjáls félagasamtök á sviði forvarna og meðferðarúrræða, auk sveitarfélaga, íþrótta- og ungmennafélaga. Þeir meginþættir sem unnið verður að eru auknar forvarnaraðgerðir, samræming starfsemi lögreglu og tollgæslu og fjölgun meðferðarúrræða fyrir unga fíkniefnaneytendur. Ég vil leggja áherslu á stuðning okkar sjálfstæðismanna við þessa stefnu. Þar verði sigur að vinnast.

Svo vikið sé frá dóms- og kirkjumálum að öðrum viðfangsefnum sem ríkisstjórnin hyggst einnig fást við á nýbyrjuðu kjörtímabili má nefna endurskoðun á almannatryggingakerfinu og samspili þess við skattkerfið og réttindakerfi lífeyrissjóðanna. Hér er markmiðið að einfalda alla stjórnsýslu og samræma til hagsbóta fyrir bótaþega. Ríkisstjórnin mun leggja sérstaka áherslu á að bæta hag tekjulágra öryrkja og aldraðs fólks. Við munum einnig kappkosta að tryggja landsmönnum áfram greiðan aðgang að heilbrigðisþjónustu og bæta í því sambandi rekstur heilbrigðisstofnana þannig að nýjungar og fjölbreytni í þjónustu fái notið sín og faglegur metnaður í starfi heilbrigðisstarfsfólks fái útrás.

Í nýafstaðinni kosningabaráttu var hörð hríð gerð að verkum fráfarandi ríkisstjórnar og dregin upp sú mynd að í þjóðfélaginu ríkti miður gott ástand. Þessari sýn stjórnarandstöðunnar höfnuðu kjósendur. Það hefur m.a. orðið til þess að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarstjóri hefur séð ástæðu til þess að taka baráttusystkini sín í Samfylkingunni til bæna í viðtali sem blaðið Dagur átti við hana um síðustu helgi og hér hefur áður verið vitnað til. Þar segir Ingibjörg m.a. að ímyndin sem dregin var upp í kosningabaráttunni sé ekki það þjóðfélag sem blasi við almenningi og samfylkingarfólkið hafi verið of upptekið af dægurmálaþrasi í stað þess að draga upp mynd af framtíðinni og viðfangsefnum hennar. Allt tal hér í kvöld um óljósa stefnu ríkisstjórnarinnar, moðsuðu og nýju fötin keisarans virðist því hitta Samfylkinguna mest fyrir sjálfa. Orð hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar um NATO koma hins vegar engum á óvart. Stefna hans er þó skýr. Hann hefur alltaf verið á móti veru Íslands í Atlantshafsbandalaginu, andstætt vilja meiri hluta þjóðarinnar.

Málflutningur stjórnarandstöðunnar hefur líka verið ótrúverðugur þar sem fullyrt er að hið stöðuga efnahagsástand þjóðarbúsins sé að fara úr böndum. Nefnd eru dæmi um hækkanir sem stafi af ákvörðunum Alþingis um fjármögnun nauðsynlegrar vegagerðar og hækkunar tryggingariðgjalda sem a.m.k. að hluta til stafa af ákvörðunum Alþingis um að bæta rétt þeirra sem fyrir bifreiðaslysum verða. Síðara atriðið er reyndar enn í sérstakri athugun hjá eftirlitsstofnun þeirri sem fjallar um vátryggingarstarfsemi.

Verðlag verður aldrei fryst, hvorki hér á landi né annars staðar. Það tekur breytingum en við jafnvægisástand bæta lækkanir upp hækkanir þegar til lengri tíma er litið. Aðalatriðið er að sú efnahagsstefna sem fylgt er sé traust og það er hún svo sannarlega.

Stefna ríkisstjórnarinnar er að leysa aðkallandi vandamál þjóðfélagsins í markvissum skrefum sem byggð eru á góðum undirbúningi og fjárhagslegri getu ríkissjóðs. Þannig verður uppbygging þjóðfélagsins farsæl og á traustum grunni byggð.
Við ætlum ekki að senda komandi kynslóðum reikninginn fyrir framkvæmdum okkar og neyslu heldur ætlum við að skila þeim góðu búi sem gerir þeim kleift að takast á við og sigra þau vandamál sem að þeim kunna að steðja. Stöðugleiki í efnahagsmálum skapar skilyrði fyrir áframhaldandi hagvexti og sparnaði.

Við sjálfstæðismenn höfum barist fyrir jafnrétti allra þjóðfélagsþegna og þar á meðal jafnrétti kynjanna til starfa. Við hljótum því að fagna því að nú skuli 22 konur hafa verið kjörnar á þing eða tæplega 35% þingmanna. Við ríkisstjórnarmyndunina var það ákveðið að í ríkisstjórninni skuli í fyrstu sitja þrjár konur og síðan fjórar eða þriðjungur ráðherra. Við erum því að nálgast það mark að hlutfall karla og kvenna í helstu valdastofnun þjóðarinnar verði svipað og hlutfall kynjanna er með þjóðinni þótt þar hljóti að sjálfsögðu að verða einhver frávik til beggja átta í framtíðinni.
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er lögð mikil áhersla á að tryggja jafnrétti kvenna og karla í hvívetna, t.d. með lengingu fæðingarorlofs og jöfnum rétti feðra og mæðra til töku þess.

Hæstv. forseti. Það er bjart yfir þeirri ríkisstjórn sem nú hefur tekið við stjórnartaumunum á Íslandi. Hún einkennist af krafti og stöðugleika. Stefna hennar er traust og trúverðug. Myndun ríkisstjórnarinnar er rökrétt afleiðing af kosningaúrslitunum og verkin munu sýna að þjóðin kaus rétt, hún valdi þann kost sem farsælastur er fyrir almenning í landinu.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta