Hoppa yfir valmynd
10. júní 1999 Dómsmálaráðuneytið

Aðstaða til skýrslutöku barna og ungmenna fyrir dómi

Fréttatilkynning

Ný aðstaða sem einkum er ætluð til skýrslutöku barna og ungmenna hefur verið tekin í notkun í Héraðsdómi Reykjavíkur. Undirbúningur að verkefni þessu hófst fyrir nokkrum árum. Var brýn þörf orðin á sérstaklega útbúinni aðstöðu til þess að börn og ungmenni sem grunur leikur á að orðið hafi fyrir kynferðislegri misnotkun yrðu fyrir sem minnstum óþægindum vegna skýrslutöku í slíkum málum. Með tækjabúnaði í hinni nýju aðstöðu er unnt að taka skýrslu barns eða ungmennis upp á myndband að sem fæstum viðstöddum, en þó þannig að fleiri gætu fylgst með yfirheyrslunni án þess að sá sem verið er að yfirheyra verði fyrir truflun af því.

Heimild fékkst árið 1996 til að leigja viðbótarhúsnæði fyrir aðstöðuna á 4. hæð í dómhúsinu við Lækjartorg og hefur verið unnið að verkefninu síðan, en flókinn og dýran tækjabúnað þarf í slík yfirheyrsluherbergi. Innréttaður hefur verið nýr dómsalur og sérútbúið herbergi sem nota á í þessu skyni. Gert er ráð fyrir að skýrslutaka yfir barni eða ungmenni fari fram í hinu sérútbúna herbergi en aðrir þeir sem koma að skýrslutökunni geti fylgst með af sjónvarpsskjá í dómssalnum. Yfirheyrslan er jafnframt tekin upp á myndband. Sem áður segir er markmiðið með þessari aðstöðu fyrst og fremst að vernda brotaþola, einkum börn og unglinga, og reyna að tryggja að þeir verði fyrir sem minnstri röskun vegna nauðsynlegra yfirheyrslna í tengslum við rannsóknir og dómsmeðferð í erfiðum sakamálum. Þörfin er ekki síður brýn í ljósi þeirra breytinga sem gerðar voru á síðasta þingi á lögum um meðferð opinberra mála, en þar er nú gert ráð fyrir að við rannsókn mála hjá lögreglu skuli skýrsla af brotaþola sem er yngri en 18 ára almennt tekin á dómþingi fyrir luktum dyrum. Þegar grunur leikur á því að barn hafi verið beitt kynferðislegri misnotkun ber lögreglu alltaf að leita til dómara með beiðni um skýrslutöku af barninu á rannsóknarstigi.

Ástæður lagabreytinganna má m.a. rekja til tillagna í skýrslu umboðsmanns barna til dómsmálaráðherra haustið 1997. Voru þar borin saman lagaákvæði sem miða að því að vernda börn sem eru brotaþolar á Íslandi, í Danmörku, Noregi og Svíþjóð, og var staða barna hér á landi að ýmsu leyti lakari í þessum efnum. Lagði umboðsmaður barna til að að tekin yrðu í lög um meðferð opinberra mála ákvæði um skýrslutöku dómara utan réttar af barni sem hefur orðið fyrir kynferðislegri misnotkun auk ýmssa annarra atriða sem stefna að því að bæta stöðu þolenda afbrota. Röksemdin sem að baki liggur er sú að börnum, sem grunur leikur á að hafi orðið fyrir kynferðisbroti, verði hlíft við því, eftir því sem kostur er, að þurfa gefa skýrslu í opinberu máli oftar en einu sinni. Eftir þessar breytingar er óhætt að fullyrða að réttarstaða barna og ungmenna sem eru brotaþolar í kynferðisbrotamálum hefur batnað til muna.

Dóms- og kirkjumálaráðuneytið 10. júní 1999.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum