Nr. 055, 15. júní 1999: Ráðstefna sveitar- og héraðsstjórna (CLRAE) í Strassborg
Fréttatilkynning
frá utanríkisráðuneytinu
Nr. 55
Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra og formaður ráðherranefndar Evrópuráðsins ávarpaði í dag ráðstefnu sveitar- og héraðsstjórna í Evrópu (CLRAE) í Strassborg. Ráðstefna sveitar- og héraðsstjórna er ráðgefandi stofnun innan Evrópuráðsins en eitt mikilvægasta verkefni hennar er að efla lýðræði í sveitar- og héraðsstjórnum og stuðla að auknu samstarfi milli þeirra í aðildarríkjum ráðsins. Ráðstefnan kemur saman einu sinni á ári í Strassborg og sitja hana fulltrúar frá aðildarríkjunum.
Í máli sínu lagði utanríkisráðherra ríka áherslu á hlutverk Evrópuráðsins í uppbyggingarstarfinu í Kosovo að átökum loknum. Evrópuráðið byggi yfir mikilli sérþekkingu á sviði mannréttindamála, uppbyggingu lýðræðislegra stofnana og réttarríkis, sem mikilvægt væri að nýta með sem bestum hætti í samstarfi við aðrar alþjóðastofnanir. Hann lýsti ánægju sinni með starf ráðstefnu sveitar- og héraðstjórna á þessu sviði og áréttaði mikilvægi þess fyrir lýðræðisþróun í álfunni. Utanríkisráðherra greindi jafnframt frá fyrirhugaðri ferð sinni til Bosníu-Hersegóvínu ásamt framkvæmdastjóra Evrópuráðsins en Bosnía-Hersegóvína hefur sótt um aðild að Evrópuráðinu.
Að ávarpinu loknu svaraði utanríkisráðherra spurningum frá fulltrúum á ráðstefnunni.
Utanríkisráðherra undirritaði einnig í dag rammasamning Evrópuráðsins um samstarf byggðarlaga og svæðisbundinna yfirvalda yfir landamæri ásamt tveimur bókunum við hann.
Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 15. júní 1999.