Bygging álvers við Reyðarfjörð
Iðnðar- og viðskiptaráðuneyti
Nr. 8/1999
Nú um nokkurt skeið hafa viðræður staðið yfir um byggingu álvers við Reyðarfjörð. Að þessum viðræðum hafa komið iðnaðar- viðskiptaráðuneytið fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, Landsvirkjun og Hydro Aluminium AS í Noregi. Fulltrúar þessara aðila hafa í dag skrifað undir yfirlýsingu um þetta efni.
Í yfirlýsingunni er gerð grein fyrir viðskiptahugmyndinni sem liggur að baki umræddri fjárfestingu, vinnu- og tímaáætlun næstu ellefu mánuði og skuldbindingum og fyrirætlunum samstarfsaðila. Markmiðið er að búa svo í haginn með undirbúningsvinnu að taka megi ákvörðun um hvort ráðist verður í þetta verkefni fyrir 1. júní árið 2000.
Stefnt er að því að árleg framleiðslugeta álversins verði í upphafi 120 þúsund tonn - en síðar verði mögulegt að stækka það í allt að 480 þúsund tonn – og að það hefji rekstur seinni hluta ársins 2003. Áætlað er að kostnaður við byggingu 120 þúsund tonna álvers sé rúmlega 30 milljarðar íslenskar krónur. Gert er ráð fyrir að íslenskir fjárfestar og Hydro Aluminium eigi sameiginlega meiri hluta í álfyrirtækinu. Fimm íslensk fjármálafyrirtæki hafa tekið að sér að kanna forsendur fyrir slíku samstarfi. Jafnframt er áformað að bjóða hlutafé til sölu á Verðbréfaþingi Íslands og víðar.
Til þess að álverið geti hafið rekstur á tilsettum tíma þarf Landsvirkjun að hefja framkvæmdir við Fljótsdalsvirkjun næsta sumar. Við upphaf framkvæmda þurfa að liggja fyrir helstu samningar og tryggingar sem fyrirtækið metur fullnægjandi. Það setur rammann um tíma- og vinnuáætlun samstarfsaðilanna. Áætlað er að fjárfesting í orkuverum og flutningsmannvirkjum nemi tæplega 30 milljörðum íslenskra króna.
Samstarfsaðilarnir að þessari yfirlýsingu munu tryggja eftir föngum að ákvörðun um að ráðast í fyrsta áfanga verkefnisins – Fljótdalsvirkjun og 120 þúsund tonna álver við Reyðarfjörð – geti legið fyrir 1. júní árið 2000 þannig að unnt verði að taka orkuverið og álverið í notkun fyrir árslok 2003. Í því skyni hafa aðilar samþykkt að framkvæma og fjármagna í sameiningu viðamiklar athuganir og rannsóknir sem miða að þessu marki.
Gert er ráð fyrir að álverið verði búið bestu tækni sem nýtt er við álframleiðslu og mengunarvarnir. Unnið er að rannsóknum á áhrifum álversins á umhverfið og er stefnt að því að sækja um starfsleyfi og leggja fram til kynningar skýrslu um mat á umhverfisáhrifum álversins í september nk.
Ríkisstjórn Íslands leggur áherslu á að skapa sátt milli skynsamlegrar nýtingar auðlinda og náttúruverndarsjónarmiða á grundvelli sjálfbærrar þróunar til hagsbóta fyrir komandi kynslóðir. Jafnframt er mikilvægt að nýting orkulindanna stuðli að öflugri byggð í landinu. Mun áframhaldandi undirbúningur álvers við Reyðarfjörð og orkuframkvæmda vegna þess byggjast á þessari meginstefnu.
Landsvirkjun hefur á undanförnum misserum unnið að gerð skýrslu um umhverfisáhrif Fljótsdalsvirkjunar. Skýrslan byggir á rannsóknum á náttúrufari á virkjunarsvæðinu sem hófust árið 1975. Í tengslum við gerð skýrslunnar hafa verið gerðar margvíslegar rannsóknir sem stefnt er að því að ljúka í sumar. Þegar skýrslan verður tilbúin í haust verður hún birt og send stjórnvöldum.
Iðnaðarráðherra gaf út leyfi til Landsvirkjunar fyrir 210 MW virkjun í Jökulsá í Fljótsdal í apríl árið 1991. Við útgáfu leyfisins lá fyrir umsögn Náttúruverndarráðs um virkjunina. Þar segir m.a.:
"Það er skilningur Náttúruverndarráðs að jákvæð umsögn ráðsins (bréf dagsett 31. mars 1981) varðandi eldri hugmyndir um virkjun standi enn, þar með talið samþykki við því að leggja Eyjabakka undir vatn. Sú breytta verkhönnun sem hér er verið að óska umsagnar um dregur verulega úr umhverfisáhrifum á heiðinni. Þeir skurðir og stíflur sem eldri hugmyndir gerðu ráð fyrir hefðu efalítið verið til lýta í landslagi og hindrað för manna og skepna um heiðina. Loks er það mikils virði að tjarnir og votlendi á Fljótsdalsheiðinni fá að halda sér."
Leyfið var auglýst í Lögbirtingarblaðinu í samræmi við ákvæði vatnalaga og hagsmunaaðilum gefinn frestur til að gera athugasemdir við virkjunaráformin. Átta athugasemdir bárust og var að mestu unnt að koma til móts við þær. Rétt er að taka fram að í engri þeirra var gerð athugasemd við gerð miðlunarlóns á Eyjabökkum. Virkjunarleyfið byggir á heimild í lögum um raforkuver sem samþykkt voru á Alþingi árið 1981 og gerir ráð fyrir allt að 330 MW virkjun. Samkvæmt ályktun Alþingis átti Fljótsdalsvirkjun að vera næsta meiriháttar virkjun á eftir virkjun Blöndu allt til ársins 1990, en með breytingum sem Alþingi samþykkti á lögunum það ár var virkjunarröðin sett í bráðabirgðaákvæði. Með ákvörðun um stækkun ISAL í lok ársins 1995 breyttist sú virkjunarröð. Undirbúningur Landsvirkjunar hefur að sjálfsögðu tekið mið af þessum samþykktum Alþingis.
Reykjavík, 29. júní 1999