OSPAR-ríki hraða aðgerðum gegn geislamengun
Aðildarríki OSPAR-samningsins um vernd Norð-austur Atlantshafsins samþykktu að hraða aðgerðum til að draga úr losun á geislavirkum efnum á fundi sínum í Hull í Bretlandi, sem er nýlokið. Á fundinum var einnig samþykkt ný 25 ára áætlun til að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum olíu- og jarðgasvinnslu á hafinu, en aðildarríki OSPAR höfðu áður samþykkt slíkar framkvæmdaáætlanir varðandi hættuleg efni, geislavirk efni, næringarefnaauðgun og vernd lífríkis hafsins á fundi umhverfisráðherra OSPAR-ríkjanna í Sintra í Portúgal í fyrra.
Á ráðherrafundinum í Sintra skuldbundu Bretar og Frakkar - sem eru einu þjóðirnar í OSPAR sem stunda endurvinnslu á kjarnorkuúrgangi (í Sellafield og Cap de la Hague) - sig til að hætta nánast alveg losun geislavirkra efna fyrir árið 2020. Á fundinum í Hull lögðu Írar fram tillögu, sem unnin var í nánu samráði við Íslendinga og Dani, um að OSPAR-ríkin legðu aukna áherslu á að ná markmiðum sínum varðandi aðgerðir gegn geislamengun og reyndu að hraða slíkum aðgerðum, þannig að markmiðin næðust vel fyrir árið 2020, einkum varðandi endurvinnslu kjarnaefna. Þessi tillaga var síðan samþykkt.
Fimmtán ríki, ásamt Evrópusambandinu, eiga aðild að OSPAR-samningnum. Á næsta ári kemur út skýrsla á vegum skrifstofu samningsins um ástand umhverfis Norð-austur Atlantshafsins, sem verður hin fyrsta sinnar tegundar þar sem vísindaleg heildarúttekt verður gerð á umhverfisþáttum úthafssvæðis.
Á ráðherrafundinum í Sintra skuldbundu Bretar og Frakkar - sem eru einu þjóðirnar í OSPAR sem stunda endurvinnslu á kjarnorkuúrgangi (í Sellafield og Cap de la Hague) - sig til að hætta nánast alveg losun geislavirkra efna fyrir árið 2020. Á fundinum í Hull lögðu Írar fram tillögu, sem unnin var í nánu samráði við Íslendinga og Dani, um að OSPAR-ríkin legðu aukna áherslu á að ná markmiðum sínum varðandi aðgerðir gegn geislamengun og reyndu að hraða slíkum aðgerðum, þannig að markmiðin næðust vel fyrir árið 2020, einkum varðandi endurvinnslu kjarnaefna. Þessi tillaga var síðan samþykkt.
Fimmtán ríki, ásamt Evrópusambandinu, eiga aðild að OSPAR-samningnum. Á næsta ári kemur út skýrsla á vegum skrifstofu samningsins um ástand umhverfis Norð-austur Atlantshafsins, sem verður hin fyrsta sinnar tegundar þar sem vísindaleg heildarúttekt verður gerð á umhverfisþáttum úthafssvæðis.
Fréttatilkynning nr. 12/1999
Umhverfisráðuneytið
Umhverfisráðuneytið