Hoppa yfir valmynd
1. júlí 1999 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ný náttúruverndarlög taka gildi

Ný lög um náttúruvernd, nr. 44/1999, taka gildi í dag, 1. júlí. Þau taka við af lögum sem að stofni til eru frá 1971.

Helstu nýmæli og breytingar samkvæmt hinum nýju lögum eru þessar:

1. Réttur manna til umferðar um landið og dvalar, svokallaður almannaréttur, er rýmkaður mjög. Í lögunum er að finna sérstök ákvæði um umferð gangandi, hjólandi og ríðandi manna, svo og um heimild manna til að slá upp tjöldum og um tínslu berja, sveppa, fjallagrasa og jurta.
2. Skýrar reglur eru í lögunum um bann við akstri utan vega.
3. Sérstakur kafli laganna fjallar um landslagsvernd og fleira henni tengt. Þar eru m.a. tilgreindar landslagsgerðir sem njóta skulu sérstakrar verndar. Ennfremur er þar að finna ákvæði um vernd steinda og fjallað um innflutning, ræktun og dreifingu framandi lífvera.
4. Nýjar og hertar reglur eru um nám jarðefna, þar sem m.a. eru ákvæði um heimildir til efnistöku, áætlun framkvæmdaraðila, frágang efnistökusvæða og tryggingu fyrir honum. Náttúruvernd ríkisins mun gera tillögur um frágang efnistökusvæða sem hætt er að nota og hafa umsjón með frágangi og skal því verki lokið eigi síðar en árið 2003.
5. Mælt er fyrir um að umhverfisráðherra skuli leggja sérstaka náttúruverndaráætlun fyrir Alþingi fimmta hvert ár, í fyrsta sinn árið 2000, og skal hún vera hluti af náttúruminjaskrá.
6. Ákvæði um friðlýsingar eru einfölduð og endurbætt. Sérstaklega er kveðið á um friðlýsingu náttúrumyndana í hafi.
7. Ábyrgð heimamanna á framkvæmd náttúruverndarlaga er aukin, svo og vægi og hlutverk náttúruverndarnefnda sveitarfélaga.
8. Kveðið er á um aðkomu náttúruverndaryfirvalda að gerð skipulagsáætlana og breytinga á þeim, svo og við úrskurði um mat á umhverfisáhrifum.
9. Stjórn Náttúruverndar ríkisins verður lögð niður.
Fréttatilkynning nr. 14/1999
Umhverfisráðuneytið

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta