Stefnumörkun í málefnum neytenda
Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti
Nr. 9/1999
Aðdragandi:
Á síðustu árum hafa orðið miklar samfélagslegar breitingar vegna markaðs-, einka- og alþjóðavæðingar auk þess hafa orðið örar framfarir í samskiptatækni. Því er nauðsynlegt er að styrkja stöðu neytenda í þessu nýja flókna umhverfi. Á vegum margvíslegara opinberra stofnana fer fram mikilvægt starf m.a. í þeim tilgangi að tryggja öryggi, heilsu og samkeppni til hagsbóta fyrir neytendur. Ýmis frjáls félagasamtök, einkum Neytendasamtökin, stunda mikilvæga þjónustu við félagsmenn sína og aðra neytendur. Mikilvægt er að aðgerðir stjórnvalda til aukinnar neytendaverndar taki fullt tillit til starfsemi þeirra og sérþekkingar.
Þann 19. október s.l. skipaði iðnaðar- og viðskiptaráðherra starfshóp: ,,til þess að vinna drög að stefnumörkun í málefnum neytenda. Markmið með slíkri stefnumörkun er að skipuleggja betur og samræma það starf sem nú þegar er unnið í þágu neytendaverndar hér á landi".
Í nefndina voru skipuð Drífa Sigfúsdóttir, formaður, Tryggvi Axelsson, varaformaður og deildarstjóri í iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu, Ingibjörg R. Guðmundsdóttir, tilnefnd af ASÍ en í forföllum hennar tók Kristján Gunnarsson sæti í nefndinni, Jóhannes Gunnarsson og Jón Magnússon tilnefndir af Neytendasamtökunum, Jón Sigurðsson, tilnefndur af Vinnumálasambandinu og Ragnar Árnason, tilnefndur af VSÍ.
Þetta er í fyrsta sinn sem mótuð hefur verið heilstæð stefna ráðuneytisins í málefnum neytenda. Tillögur starfshópsins eru settar fram í mjög stuttu máli (8 blaðsíður) einkum sem forgangsröðun verkefna en meðfylgjandi er yfirlit um ýmsa aðila sem koma að málefnum neytenda. Gert er ráð fyrir að ráðuneytið láti fara fram endurskoðun á stefnumörkun sinni í neytendamálum á fárra ára fresti. Tillögur starfshópsins miða að bættu skipulagi og aukinni samræmingu á því starfi sem unnið er í þágu neytenda
Helstu tillögur starfshópsins:
Stofnuð verði Upplýsingamiðstöð neytenda - allar upplýsingar á einum stað
Starfshópurinn leggur til að stofnuð verði Upplýsingamiðstöð neytenda. Örar samfélagslegar breytingar eins og markaðs- og einkavæðing og aukin þátttaka í fjölþjóðlegu samstarfi gerir þörf á skjótum skilvirkum upplýsingum mun brýnni en áður. Megintilgangur með starfsemi Upplýsingamiðstöðvar er að gera neytendum á kleift að leita upplýsinga og leiðbeininga á einum stað um allt það er varðar hagi neytenda s.s. um réttarstöðu þeirra, aðgang neytenda að kvörtunarþjónustu, upplýsingar um markaðinn fyrir neytendur áður en kaup eru gerð, um framboð, verð og gæði vöru og þjónustu. Upplýsingamiðstöðin verði með allar helstu upplýsingar fyrir neytendur á heimasíðu sinni ásamt tengingum við heimasíður allra þeirra aðila, sem koma að neytendamálum hér á landi. Þá er æskilegt að neytendur geti sótt á Netið til dæmis kvörtunareyðublöð úrskurðarnefnda og upplýsingar um hvernig eigi að fylla þau út og fylgja þeim eftir.
Umboðsmaður neytenda
Samkeppnisstofnun gegnir í dag tvíþættu hlutverki þ.e. að vera yfirvald í málefnum sem varða samkeppni og samkeppnishömlur. Auk þess sér stofnunin um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og hefur afskipti af neytendamálum. Á öðrum Norðurlöndum hefur verið valin sú leið að fela sérstöku embætti umboðsmanns neytenda að sinna síðarnefnda hlutverkinu. Starfshópurinn telur að kanna þurfi kosti þess að stofnað verði embætti umboðsmanns neytenda.
Samkeppnisstofnun - aukið vægi neytendamála
Starfshópurinn telur brýnt að nú þegar verði neytendamálum gefið aukið vægi hjá Samkeppnisstofnun. Það verði vart gert nema að neytendmálum verði skipað í sérstaka deild, - neytendadeild - sem verði aðgreind frá annarri starfsemi stofnunarinnar og hafi sama vægi og samkeppnisdeild stofnunarinnar. Slík endurskipulagning myndi styrkja mjög stöðu neytendamála.
Einföld og skýr lagaumgjörð um réttindi neytenda
Mikilvægt er að stjórnvöld stuðli að því að lagaumgjörð til verndar réttindum neytenda sé ávallt fullnægjandi með skýrum reglum um kaup á vörum og þjónustu. Brýnt er að Alþingi ljúki endurskoðun á lögum um lausafjárkaup og setningu sambærilegra reglna um kaup á þjónustu. Auk þess setur starfshópurinn fram ábendingar um hvar sé þörf nýrra lagafyrirmæla á sviðum sem varða neytendur miklu.
Úrskurðarnefndir - ódýr og greið leið fyrir neytendur í ágreiningsmálum
Á undanförnum árum hafa verið stofnaðar úrskurðarnefndir á ýmsum sviðum er hafa það hlutverk að tryggja neytendum og seljendum vöru og þjónustu, greiða og ódýra málsmeðferð ef upp kemur ágreiningur í tengslum við kaup og sölu á vöru eða þjónustu. Nauðsynlegt er að neytendum verði tryggð sanngjörn, skilvirk og gagnsæ leið til að bera fram kvartanir vegna opinberrar þjónustu. Stefna að því að sambærilegt starf sem fram fer hjá ýmsum aðilum við að leysa úr ágreiningsmálum verði útfært með sama hætti t.d. á verksviði Fjármálaeftirlitsins, heilbrigðisþjónustunnar og á sviði sveitarstjórnamála. Þá taki íslendingar þátt í samstarfi Evrópuríkja til að tryggja aðgang að kvörtunarþjónustu vegna viðskipta sinna á evrópska efnahagssvæðinu.
Neytendamáladeild ráðuneytisins verði styrkt.
Hugað verði að því að styrkja stöðu neytendamáladeildar innan ráðuneytisins.
Yfirlitsrit um neytendamál, helstu aðila og stöðu mála.
Ráðuneytið hlutist einnig til um að gefið verði út yfirlitsrit um neytendamál, helstu aðila og stöðu mála.
Eftirlit með opinberri þjónustu
Nauðsynlegt er að virkt eftirlit sé með opinberri þjónustu s.s. á gæðum hennar, breytingum á skilmálum og að staðlaðir samningsskilmálar sem eru ósanngjarnir gagnvart neytendum. Þá verði verðlagning þjónustunnar í samræmi við tilkostnað þess sem hana veitir.
Reykjavík, 1. júlí 1999