Hoppa yfir valmynd
6. júlí 1999 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Skýrsla um ástand umhverfismála í ESB

Út er komin skýrslan Umhverfismál í Evrópusambandinu við aldamót, sem Umhverfisstofnun Evrópu gefur út. Í skýrslunni er fjallað um ástand og framtíðarhorfur í umhverfismálum í ESB, en einnig er litið til fleiri ríkja Evrópu sem tengjast bandalaginu, einkum ríkja sem sótt hafa um inngöngu í ESB og ríkja sem aðild eiga að Evrópska efnahagssvæðinu, þ.á m. Íslands. Yfirlit yfir helstu niðurstöður skýrslunnar hefur verið gefið út á íslensku og fylgir ritið hér með. Til hægðarauka eru nokkrar lykilniðurstöður skýrslunnar teknar saman hér, en þær eru áhugaverðar fyrir Íslendinga í ljósi samanburðarins og þeirrar staðreyndar að um 70% af reglum ESB um umhverfismál eru teknar inn í íslenska löggjöf í gegnum EES-samninginn.

Í formála að skýrslunni segir að Umhverfisstofnun Evrópu meti ástandið þannig að þrátt fyrir 25 ára opinbera stefnumörkun ESB að umhverfismálum hafi ástandið ekki batnað umtalsvert og á sumum sviðum fari það versnandi. Helsti þrándur í götu framfara er að þróun á sumum sviðum efnahagslífsins er ekki sjálfbær. Nú er svo komið að í flestum löndum ESB hefur um eða yfir 80% lands verið tekið til hagnýtra nota undir þéttbýli, landbúnað, skógrækt, samgöngumannvirki o.fl. og brátt verður lítið afgangs til að taka af. Mannfjöldi í ESB-ríkjunum mun áfram verða nokkurn veginn í jafnvægi, en neysla mun aukast um 50% á tímabilinu 1995-2010, svk. spá. Aukið álag á umhverfið kemur ekki síst frá auknum samgöngum og ferðamennsku, spáð er um 50% aukningu ferðamanna á milli landa 1996-2010. Notkun endurnýjanlegra orkugjafa nemur um 6% orkunotkunar í ESB, en mun vart verða meira en 8% árið 2010, þrátt fyrir áætlanir ESB um tvöföldun notkunar þeirra fyrir 2010. Framtíðarhorfurnar næsta áratug eða svo eru einna verstar hvað varðar útstreymi gróðurhúsalofttegunda og aukið magn úrgangs, en á hinn bóginn er líklegt að áfram dragi úr mengun lofts og vatns og súrnun umhverfisins. Hér á eftir ef stutt samantekt á ástandi og framtíðarhorfum á nokkrum sviðum umhverfismála:

Gróðurhúsalofttegundir

Útstreymi kolvíoxíðs minnkaði um 1% milli 1990 og 1996. Ef svo fer fram sem horfir mun losun gróðurhúsalofttegunda aukast um 6% frá 1990 til 2010, en ESB samþykkti í Kyoto að draga úr losun um 8%.

Eyðing ósonlagsins

Notkun ósoneyðandi efna hefur minnkað hratt í Evrópu, mun hraðar en alþjóðasamningar kveða á um. Ósonlagið mun á hinn bóginn ekki byrja að færast í betra horf fyrr en 4. áratug næstu aldar, þannig að útfjólublá geislun og afleiðingar hennar, s.s. aukin tíðni húðkrabbameins, mun aukast þangað til.

Hættuleg efni

Losun margra hættulegra efna, s.s. þungmálma og þrávirkra lífrænna efna, hefur minnkað og styrkur þeirra í náttúrunni einnig. Heildarframleiðsla og losun hættulegra efna í ESB mun aukast, en þróunin verður misjöfn eftir efnum: Losun kvikasilfurs, kopars og kadmíums mun aukast, en losun blýs, díoxíns og PCB minnka.

Loftmengun

Dregið hefur loftmengun af brennisteinsdíoxíðs, köfnunarefnisoxíða og rokgjarnra lífrænna efnasambanda, einkum frá verksmiðjum og orkuverum. Slík mengun hefur þó farið vaxandi frá samgöngum. Búist er við áframhaldandi batnandi loftgæðum í borgum og minnkandi súrnun umhverfis vegna loftmengunar.

Ferskvatn

Ám sem teljast alvarlega mengaðar fer fækkandi. ESB-ríkin nota um 21% af endurnýjanlegum vatnsforða sínum (Ísland um 0,1%), sem telst sjálfbær notkun. Búist er við áframhaldandi batnandi ástandi, m.a. vegna betri skólphreinsunar.

Jarðvegseyðing

Rýrnun jarðvegs vegna rofs, mengunar og útþenslu byggðar og mannvirkja fer vaxandi og er í flestum tilvikum óafturkræf.

Úrgangur

Magn úrgangs á ESB-svæðinu eykst stöðugt og ekki hefur tekist að ná markmiðum sambandsins í þeim efnum. Endurnýting úrgangs hefur tekist vel í sumum ESB-ríkjanna, einkum í Norður- og Mið-Evrópu. Þrátt fyrir það er búist við að heildarmagn úrgangs sem fargað er haldi áfram að vaxa.

Heilsufar

Hefðbundin heilsuspillandi umhverfisvandamál á borð við óneysluhæft vatn og óviðunandi meðferð úrgangs og skólps þekkjast vart lengur innan ESB. Mengunaragnir í lofti kunna að valda 40-150.000 dauðsföllum innan ESB á ári og hluti aukningar á húðkrabbameini skrifast á þynnra ósonlag, en tíðni þess er talin munu ná hámarki árið 2055. Snerting við ýmis manngerð efni í litlum skömmtum í umhverfinu kann að hafa áhrif á heilsufar manna og á tíðni asma, ofnæmis, matareitrana, sumra tegunda krabbameins og skemmda á tauga- og ónæmiskerfi. Talið er að tíðni asma og ofnæmis í öndunarfærum muni fara vaxandi og aukin hávaðamengun sums staðar getur leitt til aukinnar streitu og hjartasjúkdóma.

Fréttatilkynning nr. 15/1999
Umhverfisráðuneytið

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta