Hoppa yfir valmynd
20. júlí 1999 Forsætisráðuneytið

Skipun nefndar til ráðgjafar um eftirlit og eftirlitsreglur hins opinbera skv. lögum nr. 27/1999

Forsætisráðherra hefur skipað nefnd til ráðgjafar um eftirlit og eftirlitsreglur hins opinbera skv. lögum nr. 27/1999. Nefndarmenn eru Orri Hauksson aðstoðarmaður forsætisráðherra, sem jafnframt er formaður nefndarinnar, Ágúst Þór Jónsson verkfræðingur, Kristín Guðmundsdóttir fjármálastjóri Granda, Sigurður M. Magnússon forstöðumaður Geislavarna ríkisins og Þórunn Sveinbjörnsdóttir 1. varaformaður verkalýðsfélagsins Eflingar. Varamenn eru Guðmundur K. Steinbach verkfræðingur og Árni Páll Árnason héraðsdómslögmaður. Með nefndinni starfa Haukur Ingibergsson skrifstofustjóri í fjármálaráðuneytinu og Birgir Ármannsson héraðsdómslögmaður, sá síðarnefndi tímabundið.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir m.a.: "Ríkisrekstur verði gerður einfaldari, skilvirkari og þjónustan bætt. Dregið verði úr skrifræði í samskiptum við stjórnvöld og óþarfa laga- og reglugerðaákvæði afnumin." "Tryggt verði að eftirlitsaðilar íþyngi fyrirtækjum ekki að óþörfu." Ofangreindri nefnd er m.a. ætlað að vinna að þessum markmiðum á grundvelli laganna.

Í lögunum segir m.a. um nefndina: "Þeir aðilar sem eftirlit beinist að og aðrir þeir sem hagsmuni hafa af opinberu eftirliti geta óskað eftir athugun nefndarinnar á tilteknum þáttum þess. Ráðherrar geta sent nefndinni til umsagnar mál er varða opinbert eftirlit. Jafnframt getur nefndin átt frumkvæði að athugunum á vissum þáttum eftirlitsins. Starf nefndarinnar skal miða að því að opinberar eftirlitsreglur séu í samræmi við ákvæði 3. gr. og að eftirlit á vegum hins opinbera sé jafnan eins hagkvæmt og kostur er fyrir þau fyrirtæki og einstaklinga sem eftirlitið beinist að og fyrir hið opinbera. Nefndin getur beint tilmælum til forsætisráðherra og annarra ráðherra um að eftirlitsreglur verði endurskoðaðar. Forsætisráðherra getur í reglugerð sett nánari ákvæði um skipan og starf nefndarinnar.

3. gr. laganna, sem vísað er til, er sem hér segir: "Þegar eftirlitsreglur eru samdar eða stofnað er til opinbers eftirlits skal viðkomandi stjórnvald meta þörf fyrir eftirlit, gildi þess og kostnað þjóðfélagsins af því. Slíkt mat getur m.a. falist í áhættumati, mati á alþjóðlegum skuldbindingum um eftirlit, mati á kostnaði opinberra aðila, fyrirtækja og einstaklinga, mati á hvort ná megi sama árangri með hagkvæmari aðferðum eða mati á þjóðhagslegu gildi eftirlits. Þegar stjórnarfrumvarp sem felur í sér ákvæði um eftirlit er lagt fyrir ríkisstjórn skal leggja fram greinargerð um mat skv. 1. mgr. Enn fremur skulu slíkar greinargerðir liggja fyrir þegar þess háttar reglur um eftirlit eru staðfestar í öðrum tilvikum. Forsætisráðherra skal setja nánari reglur um mat á eftirlitsreglum og þær aðferðir við eftirlit sem leitast skal við að fylgja við undirbúning að setningu laga og reglna."

Næstu mánuði verður unnið að því að móta nánar verksvið og verklag nefndarinnar, forgangsröðun verkefna og áherslur í framkvæmd laganna að öðru leyti.

Í Reykjavík, 20. júlí 1999.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta