Hoppa yfir valmynd
27. júlí 1999 Matvælaráðuneytið

Reglugerðir um stjórn fiskveiða á fiskveiðiárinu 1999/2000.

Reglugerðir um stjórn fiskveiða á fiskveiðiárinu 1999/2000.


Samkvæmt lögum nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, skal ráðherra fyrir upphaf fiskveiðiárs hverju sinni gefa út reglugerðir, sem lúta að framkvæmd laga um stjórn fiskveiða, úthlutun jöfnunarbóta og innheimtu gjalds til Þróunarsjóðs og veiðieftirlitsgjalds. Ráðherra hefur, í samræmi við þetta, gefið út í dag eftirgreindar reglugerðir: um veiðar í atvinnuskyni fiskveiðiárið 1999/2000, um veiðar krókabáta á fiskveiðiárið 1999/2000, um sérstakar úthlutanir uppbóta, sem ákveðnar voru í lok síðasta þings og um Þróunarsjóðsgjald og veiðieftirlitsgjald.

1. Í reglugerð um veiðar í atvinnskyni á fiskveiðiárinu 1999/2000 eru ekki verulegar breytingar frá reglugerð þessa fiskveiðiárs en vakin er athygli á eftirfarandi:
    a. Ákvarðanir heildarafla í innfjarðarækju og úthafsrækju verða
    endurskoðaðar næsta vetur.
      b. Skip sem stunda veiðar á rækju á Dohrnbanka skulu búin tækjum til sjálfvirkrar sendingar staðsetninga.
      c. Settar eru nánari reglur með hvaða skilyrðum bátar með leyfi til veiða í atvinnuskyni mega stunda tómstundaveiðar.

2. Í reglugerð um krókaveiðar á fiskveiðáriinu 1999/2000 er kveðið á með hvaða hætti veiðum þessara báta verður skipað á árinu. Þá er bátum í raun skipað í fjögur mismunandi kerfi, eftir vali þeirra fyrr á þessu ári. Á fiskveiðárinu 2000/2001 verður skipan þessara mála nokkuð einfölduð því þá verða allir krókabátar annað hvort í krókahlutdeildarkerfi eða handfærakerfi með föstum framseljanlegum sóknardögum.

3. Í reglugerð um úthlutun uppbóta er fylgt þeirri ákvörðun Alþingis frá því í vor um að úthluta 3.000 lestum af þorski til báta undir 200 brl., sem hafa minni aflaheimildir en 450 þorskígildislestir, enda hafi þeir landað þorski á fiskveiðiárunum 1996/1997 eða 1997/1998. Þá er í þessari reglugerð kveðið á um sérstaka 5% hækkun á þorskaflahlutdeild báta minni en 10 brt./brl. sem þorskafla hafa landað á sama tíma.

4. Í reglugerðum um Þróunarsjóðsgjald og veiðieftirlitsgjald á fiskveiðiárinu 1999/2000 er gjaldstofninn miðaður við þorksígildi. Vegna verulegra hækkuna á verðmæti þorsks umfram flestar aðrar tegundir, fækkar úthlutuðum þorskígildislestum í heild. Auk þess er lækkun í úthlutun í nokkrum tegundum, eins og t.d. úthafsrækju, karfa og skarkola. Afleiðing af þessu verður sú, að heildargreiðsla til Þróunarsjóðsins lækkar um 20%. Varðandi veiðieftirlitsgjaldið hins vegar þá er ljóst að til þess að ná inn tekjum til að standa undir sama kostnaði og á yfirstandandi fiskveiðiári þarf gjaldið á þorskígildistonn að hækka úr 166 kr. í 242 kr. Þrátt fyrir þessa miklu hækkun leiðir þetta aðeins til þess að heildargreiðslurnar vegna veiðieftirlits hækka aðeins um 8,7 % en hins vegar færist greiðslubyrðin nokkuð til eftir því hvernig samsetning aflaheimilda er.

Auk ofangreindra reglugerða hefur ráðherra gefið út reglugerð um sérstaka úthlutun til báta, sem orðið hafa fyrir verulegum skerðingum vegna minnkandi rækjuafla innfjarða. Heimild þessi byggist á ákvæði 9. gr. laga um stjórn fiskveiða en það segir, að ráðherra geti ráðstafað allt að 12.000 þorskígildislestum til að bæta skerðingar sem verða í úthlutuðu aflamarki samkvæmt reglum, sem hann setur. Er í reglugerðinni kveðið á um að, að bátar sem á fiskveiðiðárinu 1998/1999 urðu fyrir skerðingu, sem nam meira en 30% frá meðalafla síðustu sex fiskveiðiára, fái bætur að því marki. Þó segir að bátar verði að bera skerðingu óbætta fari meðalaflamark á einstökum svæðum ekki niður fyrir 52,5 lestir. Miðað við þessar forsendur verður bátum frá Ísafjarðardjúpi, Húnaflóa og Eldeyjarsvæði úthlutað samtals 2.071 þorskígildislestum, en í þessu sambandi má benda á, að skerðing þeirra hefur á undanförnum árum verið mjög mikil og á síðasta ári varð hún samtals 4.030 lestir í rækju miðað við meðalafla á þessum svæðum. Uppbótum þessum verður úthlutað á grundvelli aflahlutdeildar í innfjarðarækju 1. júlí 1999.


Sjávarútvegsráðuneytinu, 27. júlí 1999


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum