Hoppa yfir valmynd
9. ágúst 1999 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Rannsókn á tilvist og útbreiðslu Campylobacter í umhverfi, dýrum og matvælum

Á ríkisstjórnarfundi í morgun var að tillögu Sivjar Friðleifsdóttur umhverfisráðherra samþykkt að veita 3 millj. kr. í rannsókn á tilvist og útbreiðslu Campylobacter í umhverfi, dýrum og matvælum.
Frá árinu 1990 og fram til ársins 1998 hefur iðrasýkingum af völdum bakteríunnar Campylobacter fjölgað hér á landi úr alls 16 í 220 tilfelli á ári en frá árinu 1995 og fram til ársins 1998 fjölgaði árlegum tilfellum úr 39 í 220. Á árinu 1995 voru tilfelli sem áttu uppruna sinn innanlands 19 en hafði fjölgað í 151 árið 1998. Bráðabirgðatölur frá Sýklafræðideild Landspítala gefa til kynna að staðfestar hafi verðið 103 sýkingar af völdum Campylobacter í mönnum í júlímánuði sl. Ætla má að raunverulegur fjöldi sýkinga sé á bilinu 5-20 faldur fjöldi staðfestra sýkinga. Að mati Hollustuverndar ríkisins, sýklafræðideildar Landspítalans, landlæknis, sóttvarnalæknis, yfirdýralæknis og fleiri sérfróðra aðila er hér um að ræða alvarlega sýkingu sem getur lagst þungt á menn.
Hollustuvernd ríkisins hefur fengið loforð um styrk úr sjóðum Rannís til þess að vinna að rannsóknum og úrlausnum á vandamálinu (heiti verkefnis: Campylobacteriosis faraldsfræði og íhlutandi aðgerðir) í samstarfi við sýklafræðideild Landspítala, landlækni, yfirdýralækni, Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum og Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins. Rannsóknaáætlunin sem þessir aðilar hafa sett upp er til 4 ára. Verkefnið er fjölþætt og meðal viðfangsefna, ásamt rannsóknum á útbreiðslu og fyrirbyggjandi aðgerðum gegn Campylobacter, er ráðgert að kanna útbreiðslu Salmonella, hugsanlega tilvist E. coli O157:H7, nýgengi iðrasýkinga og erfðafræðilegan fjölbreytileika og tengsl Campylobacter stofna sem er að finna hérlendis. Gert er ráð fyrir að niðurstöður skili sér jafnt og þétt allan tímann.
Vegna þess að ástandið er talið alvarlegt þarf að grípa til mun hraðari aðgerða en hægt er að gera innan þess ramma sem áðurnefnt rannsóknarverkefni rúmar.
Rannsóknin sem þegar er hafin er unnin hjá viðkomandi stofnunum heilbrigðis-, landbúnaðar- og umhverfisráðuneytisins undir yfirumsjón Hollustuverndar ríkisins á svipaðan hátt og gert var á árinu 1987 þegar upp komu alvarleg salmonellutilvik en sú vinna hefur m.a. leitt til þess að salmonella er nánast horfin úr íslenskum matvælum.
Rannsóknin beinist að matvælum á markaði, yfirborðsvatni, framleiðslustöðum, sláturhúsum og umhverfi þessara staða. Þessi rannsókn mun taka 6 til 8 vikur. Lögð er áhersla á að taka á þeim þáttum sem liggja undir sterkum grun vegna campylobacter sýkingar og að bráðabirgðaniðurstöður liggi fyrir í lok þessa mánaðar. Rannsókn þessari er ætlað að varpa ljósi á ástandið og vera grundvöllur til aðgerða reynast þær nauðsynlegar.

Fréttatilkynning nr. 17/1999
Umhverfisráðuneytið

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta