Hoppa yfir valmynd
25. ágúst 1999 Utanríkisráðuneytið

Nr. 070, 25. ágúst 1999. Fundur utanríkisráðherra Norðurlanda (5+3+1).

FRÉTTATILKYNNING

frá utanríkisráðuneytinu

________




Nr. 70



Haustfundur utanríkisráðherra Norðulandanna, undir formennsku Halldórs Ásgrímssonar utanríkisráðherra, verður haldinn á Hótel Héraði á Egilsstöðum 29.- 30. ágúst. Samkvæmt venju bjóða norrænu ráðherrarnir starfsbræðrum sínum frá Eystrasaltsríkjunum til þátttöku og einnig sérstökum gesti, sem að þessu sinni verður Lloyd Axworthy, utanríkisráðherra Kanada. Fundur norrænu utanríkisráðherranna verður á dagskrá á sunnudag, en á mánudag verður fundað með utanríkisráðherrum Eystrasaltsríkjanna ("5+3") og utanríkisráðherra Kanada ("5+3+1").

Meðal umræðuefna á fundi norrænu utanríkisráðherranna verða norrænar áherslur og samstarf innan alþjóða- og svæðisbundinna stofnana, en eins og kunnugt er fer Ísland nú með formennsku í Evrópuráðinu, Noregur í Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE) og Finnland í Evrópusambandinu (ESB). Þá verður rætt um svæðisbundna samvinnu á Norðurslóðum, stjórnmálaþróunina í Rússlandi, uppbyggingarstarf í Kosovo og fleira. Eftir fundinn er fyrirhugað að norrænu utanríkisráðherrarnir undirriti yfirlýsingu, þar sem hvatt verður til þess að þátttaka barna og ungmenna undir 18 ára aldri í hermennsku verði bönnuð. Þar gefst tækifæri til myndatöku. Á fundinum með utanríkisráðherra Kanada mun hann meðal annars fjalla um nauðsyn þess að lögð verði aukin áhersla á "öryggi einstaklingsins" (human security) innan alþjóðakerfisins, en um er að ræða málaflokk sem Kanada hefur beitt sér sérstaklega fyrir á alþjóðavettvangi undanfarin ár.

Boðað er til fréttamannafundar á Hótel Héraði 30. ágúst kl. 12:00.




Þriðjudaginn 31. ágúst hefst eins dags opinber heimsókn Lloyd Axworthys, utanríkisráðherra Kanada, á Íslandi. Á morgunverðarfundi með Halldóri Ásgrímssyni utanríkisráðherra verður fjallað um ýmis tvíhliða málefni Íslands og Kanada, svo sem fyrirhuguð landafundahátíðahöld í Kanada árið 2000, flugsamgöngur, viðskiptamál og hugsanlega opnun sendiráðs Íslands í Kanada og gagnkvæmni Kanada í því sambandi. Einnig munu ráðherrarnir fara yfir stöðu samningaviðræðna um fríverslunarsaming EFTA og Kanada, ásamt samvinnu ríkjanna tveggja á alþjóðavettvangi. Kanadíski utanríkisráðherrann mun og eiga fund með Davíð Oddssyni, forsætisráðherra.

Fréttamönnum gefst færi á að hitta utanríkisráðherrana að máli á Reykjavíkurflugvelli kl. 17:15 þann 31. ágúst.




Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 25. ágúst 1999.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta