Hoppa yfir valmynd
27. ágúst 1999 Matvælaráðuneytið

Styrkir á vegum sjávarútvegsráðuneytisins. 27.08.99

Styrkir á vegum sjávarútvegsráðuneytisins


Sjávarútvegsráðherra Árni M. Mathiesen veitti í dag styrki til framhaldsnáms í greinum í sjávarútvegi. Alls bárust fimm umsóknir um styrkina. Þrír umsækjendanna eru í meistaranámi eða sambærilegu námi en tveir í doktorsnámi.

Við mat á styrkumsóknum var einkum litið til námsárangurs og námsferils umsækjenda, hve langt þeir væru komnir í námi og mikilvægis rannsóknasviða þeirra fyrir íslenskan sjávarútveg.

Á þessum grundvelli var ákveðið að fyrsta styrk hlyti Guðmundur Óskarsson sem er að hefja doktorsnám í fiskifræði við Dalhousie Háskólann í Nova Scotia, í Kanada. Rannsóknir Guðmundar munu beinast að hrygningu íslensku sumargotssíldarinnar í samanburði við hrygningu síldarstofna í norðvestanverðu Atlantshafi. Guðmundur mun vinna að rannsóknum sínum við Dalhousie Háskólann og í samvinnu við sérfræðinga Hafrannsóknastofnunarinnar.

Annan styrk hlýtur Margrét Bragadóttir sem er í meistaranámi við matvælafræðiskor Háskóla Íslands. Margrét er starfamaður Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins en í náminu mun hún m.a. sækja námskeið við Kaupmannahafnarháskóla. Rannsóknaverkefni Margrétar hefur bæði hagnýtt og vísindalegt gildi. Það fjallar um náttúrulega þráahindrun í loðnuafurðum.

Sjávarútvegsráðuneytið telur styrkveitingu þessa mikilvæga hvatningu til þess að laða hæfileikafólk til starfa í íslenskum sjávarútvegi.
Sjávarútvegsráðuneytið
27. ágúst 1999

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum