Hoppa yfir valmynd
2. september 1999 Matvælaráðuneytið

Starfsleyfi alþjóðlegs viðskiptafélags

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti
Nr. 13/1999




Fyrsta starfsleyfi alþjóðlegs viðskiptafélags á grundvelli laga nr. 31/1999 um alþjóðleg viðskiptafélög var gefið út þann 12. ágúst sl. til handa Borealis ehf. av. Fyrirhuguð starfsemi Borealis ehf. av. er aðallega leiga og framleiga flugvéla til erlendra aðila til flutnings utan íslenskrar lögsögu og kaup flugvéla í þeim tilgangi. Aðstandendur félagsins eru Magnús Gunnarsson sem er stjórnarformaður og framkvæmdastjóri, Arngrímur Jóhannsson og Ólafur Guðmundsson. Davíð B. Gíslason hdl. kom fram fyrir hönd félagsins við stofnun þess og skráningu.

Lög um alþjóðleg viðskiptafélög nr. 31/1999 voru samþykkt frá Alþingi þann 10. mars sl. Í lögunum felst að félag sem hlotið hefur starfsleyfi alþjóðlegs viðskiptafélags greiðir 5 % tekjuskatt í stað 30% tekjuskatts, er undanþegið eignaskatti (almennum og sérstökum) og stimpilgjaldi, nema að því er varðar skjöl vegna kaupa á vörum, þjónustu eða rekstrarfjármunum hérlendis. Alþjóðlegu viðskiptafélagi er einkum heimilt að stunda viðskipti við erlenda aðila utan Íslands, eða hafa milligöngu um slík viðskipti, með vörur sem samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið tekur ekki til og ekki eru upprunnar á Íslandi. Slíku félagi er jafnframt heimilt að hafa milligöngu um viðskipti með þjónustu milli erlendra aðila utan íslenskrar lögsögu. Alþjóðlegu viðskiptafélagi er heimilt eignarhald á öðrum alþjóðlegum viðskiptafélögum hérlendis eða atvinnufyrirtækjum erlendis, enn fremur sem félagi er heimilt að starfa eingöngu sem eignarhaldsfélag, sem á, fjárfestir í og nýtur arðs af eignarhlutum í atvinnufyrirtækjum erlendis. Alþjóðlegu viðskiptafélagi er heimil eignaraðild, fjárfesting og arður af eignarréttindum sem skráð eru opinberri skráningu utan Íslands jafnframt því sem félagi er heimilt að eiga, fjárfesta í og njóta arðs af útgáfuréttindum erlendis. Alþjóðlegu viðskiptafélagi er heimilt að eiga eða hafa umráð yfir og skrá hér á landi flugvélar og skip, önnur en fiskiskip, sinni þau verkefnum sem alþjóðlegum viðskiptafélögum er heimilt að annast. Félögunum er jafnframt heimilt að eiga eða hafa umráð yfir og skrá hér á landi flugvélar og skip, önnur en fiskiskip, og leigja eða framleigja aðilum til flutninga utan íslenskrar lögsögu.

Starfsleyfisnefnd sem skipuð er af viðskiptaráðherra veitir starfsleyfi og er formaður nefndarinnar Gunnar Jónsson hrl. Nefndin hóf störf í maímánuði og hafa þegar borist nokkrar umsóknir sem eru til umfjöllunar. Samþykktar hafa verið leiðbeiningar fyrir umsækjendur ásamt umsóknareyðublaði sem unnt er að nálgast í viðskiptaráðuneytinu. Verið er að vinna að því að koma upplýsingum um alþjóðleg viðskiptafélög á heimasíðu ráðuneytisins.

Frekari upplýsingar veitir Þóra M. Hjaltested, deildarsérfræðingur í viðskiptaráðuneytinu, í síma 560-9070.
Reykjavík 31. ágúst 1999.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta