Nr. 078, 15. september 1999.Opinber heimsókn Igor Ivanov, utanríkisráðherra Rússlands, til Íslands 17.september 1999.
FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
________
Nr. 078
Igor S. Ivanov, utanríkisráðherra Rússlands, kemur í opinbera heimsókn til Íslands, næstkomandi föstudag, 17. september í boði Halldórs Ásgrímssonar, utanríkisráðherra, ásamt fylgdarliði.
Gagnkvæm samskipti Íslands og Rússlands verða efst á baugi í heimsókninni. Á vinnufundi utanríkisráðherranna munu þeir meðal annars undirrita sérstaka viljayfirlýsingu um samráð ríkjanna í framtíðinni. Ráðherrarnir munu einnig ræða samstarf Íslands og Rússlands á viðskiptasviðinu, einkum í sjávarútvegi og framkvæmd á fisveiðisamningi ríkjanna.
Utanríkisráðherrarnir munu einnig fjalla um ýmis alþjóðamál, þ.á.m. málefni Evrópuráðsins, en Ísland fer sem kunnugt er með formennsku í ráðinu um þessar mundir, norðlæga vídd Evrópusambandsins, Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, Atlantshafsbandalagið og samstarfsverkefni þess og stöðu mála á Balkanskaga.
Svæðisbundið samstarf Íslands og Rússlands á vettvangi Barentsráðsins, Eystrasaltsráðsins og Norðurskautsráðsins verður einnig til umfjöllunar auk málefna Sameinuðu þjóðanna.
Igor S. Ivanov mun jafnframt eiga fundi með Davíð Oddssyni, forsætisráðherra og utanríkismálanefnd Alþingis auk þess sem farið verður í skoðunarferð um Reykjavík og Höfði heimsóttur.
Efnt verður til blaðamannafundar í Ráðherrabústaðnum kl. 14:00 föstudaginn 17. september í kjölfar vinnufundar utanríkisráðherranna, og fer þá einnig fram formleg undirritun samstarfsyfirlýsingar utanríkisráðuneyta Íslands og Rússlands.
Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 15. september 1999.