Hoppa yfir valmynd
18. september 1999 Matvælaráðuneytið

Útdráttur úr ræðu sjávarútvegsráðherra á aðalfundi Samtaka fiskvinnslustöðva 17.09.99

Fréttatilkynning


Á aðalfundi Félags fiskvinnslustöðva vék sjávarútvegsráðherra Árni M. Mathiesen að aukinni nýtingu í framleiðslu þorsks og rækju. Tók hann sem dæmi að framleiðsluaukning í frystihúsi sem hann heimsótti á dögunum hefði aukist úr 16 kílóum í 24 kíló á manntímann. Í rækjuvinnslu hefði framleiðsluaukning legið á bilinu 30-40% á síðustu 2-3 árum hjá þeim verksmiðjum sem beittu nýjustu tækni.

Ráðherra greindi frá því að á síðasta ári hefði landvinnsla aukist meir en sjóvinnsla í fyrsta skipti frá því sjófrysting hófst. Landfrystar botnfiskafurðir jukust í magni um tæp 9%, saltaðar um 2% en sjófrystar afurðir einungis um brot úr prósenti.

Samfara stórfelldum tækniframförum sem orðið hafa í vinnslu sjávarafurða og öllu sem henni tengist hafa orðið breytingar í vinnslunni bæði hvað varðar fjölda starfsmanna og starfstíma. Það hefur gengið illa að manna landvinnsluna og í ár hefur þurft að ráða fleira erlent starfsfólk til þeirra starfa en dæmi eru um til þessa. Ráðherra lagði áherslu á að menn þyrftu að gera sér grein fyrir hvað þetta þýddi fyrir samfélagið og framtíð fiskvinnslunnar.

Ráðherra reifaði hvernig fiskvinnslan lifir í síbreytilegum heimi og nefndi þessi dæmi og fleiri þar um. Hann vill hafa stöðumat og stefnumörkun greinarinnar sjálfrar í upphafi næsta árs. Hann hyggst því skipa nefnd undir forsæti Einars Kr. Guðfinnssonar alþingismanns, formanns sjávarútvegsnefndar Alþingis til að skoða samkeppnisstöðu fiskvinnslunnar, hverra kosta hún á völ og hvert hún stefnir. Einnig hvernig megi ná meiri virðisauka úr vinnslunni og skoða hvernig forræði mála skiptist á milli ríkisvalds, samtaka í sjávarútvegi og fyrirtækjanna sjálfra.

Í framhaldi af því verður sett verkefnisstjórn sem hafi það hlutverk að hrinda hugmyndum nefndarinnar í framkvæmd. Sjávarútvegsráðherra vill styrkja þann þátt sem snýr að úrvinnslu sjávarafurða í ráðuneytinu og á nefndarstarfið einnig að stuðla að því.

Á fundinum skýrði ráðherra einnig frá því að hann hygðist skipa nefnd undir forsæti Brynjólfs Sandholts, fyrrverandi yfirdýralæknis. Nefndin á að kanna meðferð sjávarafla og ef þurfa þykir koma með tillögur til úrbóta. Nefndin á að skoða sérstaklega hvernig á að tryggja góða meðferð hráefnis þegar eftirspurn er meiri en framboð, eins og nú er.
Sjávarútvegsráðuneytið
17. september 1999

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum