Hoppa yfir valmynd
21. september 1999 Utanríkisráðuneytið

Nr. 080, 21. september 1999. Ræða ráðherra á þingmannasamkomu Evrópuráðsins í Strassborg 21. september 1999.

FRÉTTATILKYNNING

frá utanríkisráðuneytinu

________




Nr. 080


Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra og formaður ráðherranefndar Evrópuráðsins ávarpaði í dag þingmannasamkomu Evrópuráðsins í Strassborg, Frakklandi. Þingmannasamkoma Evrópuráðsins kemur saman fjórum sinnum á ári og er skipuð fulltrúum frá þjóðþingum aðildarríkjanna.

Í upphafi ræðu sinnar fjallaði utanríkisráðherra um hlutverk Evrópuráðsins í uppbyggingarstarfinu í Kosovo. Evrópuráðið hefði, að hans áliti, mikilvægu hlutverki að gegna við að koma á mannréttindum og lýðræðislegum stjórnarháttum í kjölfar átakanna á svæðinu vegna einstakrar reynslu þess af sambærilegu uppbyggingarstarfi í ríkjum Mið- og Austur-Evrópu á síðasta áratug. Mikilvægt væri að nýta sérþekkingu þess í samvinnu við aðrar alþjóðastofnanir. Einnig kom fram í máli utanríkisráðherra að Evrópuráðið hefur nýlega opnað skrifstofu í Pristina, Kosovo.

Utanríkisráðherra lýsti einnig yfir ánægju sinni með þátttöku Evrópuráðsins í stöðugleikasáttmála fyrir Suðaustur-Evrópu en utanríkisráðherra var fyrir hönd Evrópuráðsins viðstaddur leiðtogafund um stöðugleikasáttmálann í Sarajevo 29.-30. júlí sl. Í lokayfirlýsingu leiðtogafundarins var mikilvægi Evrópuráðsins áréttað fyrir uppbyggingu lýðræðis og við að koma á lögum og reglu á svæðinu.

Utanríkisráðherra fagnaði fjölgun aðildarríkjanna og lýsti stuðningi sínum við umsóknir Armeníu, Aserbaídsjan, Bosníu-Hersegóvínu og Mónakó um aðild að ráðinu. Hann lagði áherslu á að umsóknarríkin uppfylltu skilyrði Evrópuráðsins um aðild og virtu grundvallarreglur þess um mannréttindi, lýðræði og reglur réttarríkisins.

Utanríkisráðherra lagði áherslu á að efla yrði samvinnu og samráð Evrópuráðsins við aðrar alþjóðastofnanir, sérstaklega Evrópusambandið (ESB) og Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE) en Noregur gegnir nú formennsku í ÖSE og Finnland í ESB. Mikilvægt væri að efla og samhæfa samstarf þessara stofnana, auka skilvirkni og koma í veg fyrir tvíverknað. Fram kom í máli utanríkisráðherra að hann myndi ásamt framkvæmdastjóra Evrópuráðsins eiga samráðsfundi með forsæti ESB þann 6. október og með forsæti ÖSE 20. október nk.


Ræða utanríkisráðherra á þingmannasamkomu Evrópuráðsins 21. september er hjálögð.





Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 21. september 1999.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta