Sala á 51% hlut ríkisins í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf
Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti og sjávarútvegsráðuneyti
Nr. 15/1999
Öllum er heimilt að gera tilboð í 51% eignarhlut ríkisins í FBA á grundvelli þess fyrirkomulags sem um útboðið mun gilda.
Í framhaldi af dreifðri sölu á 49% hlut í FBA á síðasta ári eru markmið útboðs á sölu 51% hlutar ríkisins nú að hámarka söluverðið, að selja dreifðum hópi hlutinn í heilu lagi og að öllum (einstaklingum, fyrirtækjum og félögum) gefist kostur á að bjóða í hlutinn.
Til að tryggja að hámarksverð fáist fyrir hlutinn er nauðsynlegt að hópur fjárfesta standi sameiginlega að tilboði í allan hlutinn. Hámarksverð fyrir eignarhlut ríkisins í bankanum verður aðeins tryggt með því að selja allan hlutinn í einu lagi. Ekki verður tekið við lægri tilboðum en sem miðast við gengið 2,80000 og skal tilboðsgengið vera með fimm aukastöfum. Tilboð skulu miðast við staðgreiðslu.
Til að tryggja dreifða sölu eru settar reglur um skyldleika og hámark hvers aðila, sem nemur 6% nafnverðs hlutabréfa og skal lágmarks hlutur hvers aðila innan hópsins vera 6 milljónir króna að kaupvirði. Eftir að tilboði hefur verið tekið verður hlut ríkisins skipt og einstakir hlutir síðan framseldir til hvers aðila fyrir sig innan hópsins í samræmi við þann lista um skiptingu sem hópurinn hefur lagt fram.
Með hugtakinu skyldir aðilar og/eða fjárhagslega tengdir er átt við:
A Hjón eða sambýlisaðila.
C Samstæða félaga, móðurfélög og dótturfélög.
- Bönkum í meirihlutaeigu ríkisins er óheimilt að mynda hóp með öðrum innlendum bönkum eða sparisjóðum.
Sparisjóðir teljast ekki skyldir aðilar samkvæmt framansögðu.
Útboðið verður í höndum Framkvæmdanefndar um einkavæðingu. Þriggja manna hópur mun fara yfir samsetningu hópa, eins og að framan greinir, og verður hann skipaður Brynjólfi Sigurðssyni, prófessor og tveimur fulltrúum Framkvæmdanefndar um einkavæðingu, þeim Hreini Loftssyni og Jóni Sveinssyni.
Unnið verður samkvæmt eftirfarandi tímaáætlun:
Þriðjudagur 21. september: Útboðið kynnt
Miðvikudagur 22. september: Auglýsing í dagblöðum
Þriðjudagur 28. september: Útboðsgögn liggja fyrir hjá Ríkiskaupum
Sunnudagur 17. október: Auglýsing í dagblöðum
Fimmtudagur 21. október: Hópar skila þátttökutilkynningum
Mánudagur 25. október: Aðvörun vegna formsatriða
Föstudagur 29. október: Lokafrestur til lagfæringa á formsatriðum
Mánudagur 1. nóvember: Tilboðseyðublöð afhent
Föstudagur 5. nóvember: Tilboðum skilað
Mánudagur 15. nóvember: Greiðsla kaupverðs
Föstudagur 10. desember: Aðrir hópar ekki lengur bundnir
Reykjavík, 21. september 1999