Nr. 084, 6. október 1999. Samráðsfundur Evrópuráðsins og Evrópusambandsins í Strassborg 6. október 1999.
FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
________
Nr. 084
Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra og formaður ráðherranefndar Evrópuráðsins tók í dag þátt og stjórnaði samráðsfundi Evrópuráðsins og Evrópusambandsins (ESB) sem haldinn var í Strassborg, Frakklandi. Fundinn sátu jafnframt Chris Patten frá framkvæmdastjórn ESB, Kimmo Sasi, utanríkisviðskiptaráðherra Finnlands en Finnland gegnir nú formennsku í ESB og Walter Schwimmer framkvæmdastjóri Evrópuráðsins.
Á fundinum var m.a. rætt um sameiginleg samstarfsverkefni Evrópuráðsins og ESB í Mið- og Austur-Evrópu. Alls hafa samstarfsverkefni stofnananna átt sér stað í tíu ríkjum Mið- og Austur-Evrópu og hafa miðað að því að treysta mannréttindi, lýðræði og réttarríkið í sessi. Í umræðum um drög að fyrirhugaðri mannréttindasamþykkt ESB (EU Charter of Fundamental Rights) ítrekaði utanríkisráðherra mikilvægi mannréttindadómstólsins í Strassborg fyrir varðveislu mannréttinda í aðildarríkjum Evrópuráðsins. Á fundinum var rætt um stjórnmálaástand í Suðaustur-Evrópu og lýsti utanríkisráðherra ánægju sinni með þátttöku Evrópuráðsins í stöðugleikasáttmála fyrir Suðaustur-Evrópu (Stability Pact). Evrópuráðið hafði að hans mati mikilvægu hlutverki að gegna í uppbyggingarstarfinu í Kosovo við að efla mannréttinda- og lýðræðisþróun í nánu samstarfi við alþjóðastofnanir á borð við ESB og ÖSE. Einnig var fjallað um stækkun Evrópuráðsins og yfirstandandi stækkunarviðræður ESB. Sex umsóknir um aðild að Evrópuráðinu liggja nú fyrir. Umsóknir Armeníu, Aserbaídsjan, Bosníu-Hersegóvínu og Mónakó eru í athugun hjá þingmannasamkomu Evrópuráðsins. Umsóknir Hvíta-Rússlands og Sambandslýðveldis Júgóslavíu hafa verið lagðar til hliðar vegna stjórnmálaástands í ríkjunum. Að lokum var rætt um ástandið í Tsjetsjníu.
Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 6. október 1999.