Nr. 01/1999
Fréttatilkynning nr. 01/1999
Tilkynning frá landbúnaðarráðuneytinu
Landbúnaðarráðuneytið hefur ráðið í þjónustu sína starfsmann, Önnu Margréti Stefánsdóttur, sem starfar tímabundið við það verkefni að útfæra Framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar um að ná fram jafnrétti kynjanna á málasviði ráðuneytistins.
Í fyrrnefndri framkvæmdaáætlun, sem nú er í gildi fyrir tímabilið frá upphafi árs 1998 til loka árs 2001, skuldbindur landbúnaðarráðuneytið sig til að vinna að eftirfarandi þáttum:
Félagslegum og efnahagslegum réttindum kvenna í bændastétt
Könnuð verði ýmis ákvæði um eignaraðild í landbúnaði og búrekstri og réttindi og skyldur henni samfara. Gerðar verði tillögur til úrbóta þar sem þess gerist þörf með það að markmiði að jafna hlut karla og kvenna.
Fræðslu fyrir konur og karla í bændastétt
Unnið verði upplýsinga og fræðsluefni um réttindi og skyldur kvenna og karla í bændastétt. Þar verði gerð grein fyrir félagskerfi landbúnaðarins, starfi hagsmunasamtaka bænda og félagslegum réttindum sem varða konur og karla í bændastétt, ásamt upplýsingum um jafnrétti kvenna og karla almennt.
Atvinnumálum kvenna á landsbyggðinni
Landbúnaðarráðuneytið beiti sér fyrir því að fullt tillit verið tekið til stöðu kvenna sem búa í dreifbýli og kvenna í bændastétt, í öllum þeim sértæku verkefnum sem unnin verða samkvæmt þessari framkvæmdaáætlun og varða stöðu kvenna á vinnumarkaðinum og möguleika þeirra til eigin atvinnurekstrar og endurmenntunar.
Fjölgun kvenna í stjórnum og ráðum sem varða landbúnaðarmál
Sérstakt átak verði gert til að fjölga konum í stjórnum, nefndum og ráðum þar sem stefnumótun varðandi framtíð landbúnaðarins á sér stað og ákvarðanir eru teknar. Þetta átak taki bæði til opinberra nefnda og ráða á vegum ríkisvaldsins og félags- og hagsmunasamtaka bændastéttarinnar.
Jafnrétti innan ráðuneytisins og stofnana þess
Könnuð verði staða jafnréttismála í ráðuneytinu og stofnunum þess og gerð áætlun um hvernig rétta skuli hlut kynjanna, þar sem þess er þörf.
Í landbúnaðarráðuneytinu, 19. febrúar 1999