Nr. 03/1998
Fréttatilkynning frá Landbúnaðarráðuneytinu nr. 3/1998
Fundur landbúnaðarráðherra OEDC-ríkjanna
í París 5.- 6. mars 1998
í París 5.- 6. mars 1998
Landbúnaðarráðherrar OEDC ríkjanna komu saman til fundar í París 5.-6. mars sl. til að ræða stöðu og framtíð landbúnaðarins í aðildarríkjunum 29. Af Íslands hálfu sóttu fundinn Guðmundur Bjarnason, landbúnaðarráðherra, dr. Björn Sigurbjörnsson, ráðuneytisstjóri og Jóhann Guðmundsson, fulltrúi landbúnaðarráðuneytisins hjá Sendiráði Íslands í Brussel. Sverrir Haukur Gunnlaugsson, sendiherra Íslands í París var sendinefndinni til aðstoðar.
Fundur sem þessi er haldinn á u.þ.b. 7 ára fresti og var meginverkefni hans að ná fram sameiginlegu áliti ráðherranna þar sem fram koma áherslur þeirra hvað varðar landbúnaðarstefnu framtíðarinnar og starfsemi OECD á þessu sviði á komandi árum. Fundur þessi var sérstaklega mikilvægur vegna tímasetningar hans rétt fyrir upphaf viðræðna á vegum WTO um nýjan landbúnaðarsamning, sem væntalega hefjast á árinu 1999.
Ráðherrarnir fjölluðu um þann árangur sem náðst hefði á sl. 10 árum. Á þessum tíma hefur opinber stuðningur við landbúnað í þessum löndum lækkað úr 45% niður í 35% og var árið 1997 metinn sem svaraði um 20 þúsund milljörðum króna.
Í umræðum ráðherranna um nýja stefnu í landbúnaðarmálum kom upp verulegur ágreiningur um stuðningsmálin og voru annars vegar Bandaríkin, Kanada, Ástralía og Nýja-Sjáland talsmenn þess að draga úr stuðningi, fella niður hömlur og takmarkanir og láta markaðinn einráða um þróun mála.
Flest hin ríkin, þar á meðal ESB-ríkin svo og Noregur og Ísland, fengu viðurkenningu á hinu fjölbreytta hlutverki landbúnaðar, sem er meira en framleiðsla matvæla. Landbúnaðurinn hefur einnig sérstöku veigamiklu hlutverki að gegna í strjálli byggðum bæði félagslega og efnahagslega, bætir alla jafna umhverfið og er nauðsynlegur þáttur til viðhalds á búsetu og menningarlífi í hinum dreifðu byggðum. Þessi niðurstaða er grundvallaratriði fyrir íslenskan landbúnað og samrýmist vel þeirri stefnu sem unnið hefur verið eftir hér á landi.
Landbúnaðarráðherra sagði að auðvitað mætti hagræða í landbúnaði á Íslandi. Landbúnaður væri hins vegar aðalatvinna í flestum sveitahéruðum og veruleg fækkun framleiðenda myndi því leiða til þess að búsetu hnignaði eða jafnvel hyrfi alveg af stórum landsvæðum.
Orðrétt sagði ráðherra: "Í WTO (GATT) viðræðunum sem framundan eru verðum við að gera allt sem unnt er til að hindra að í samningunum verði ákvæði sem leitt gætu til þess að búskapur hyrfi úr sveitum landsins. Við erum reiðubúnir til að aðlaga landbúnað okkar enn frekar að markaðsöflunum, en aðeins eitt skref í einu og mjög varlega, hafandi í huga að þjóð okkar býr í landi sem ekki býður upp á ákjósanlegustu skilyrði til landbúnaðarframleiðslu. Hún býr í víðáttumiklu landi þar sem atvinnumöguleikar í hinum dreifðu byggðum eru fyrst og fremst í landbúnaði."
Ráðherrar OECD-ríkjanna samþykktu að stefna að því að landbúnaður:
· verði tengdari markaðsöflum og falli inn í fjölbreytt viðskiptakerfi
· verði með mikla framleiðni, afkastamikill, sjálfbær og opinn fyrir nýjungum til þess að skapa rými til að bæta lífskjör framleiðenda
· sjái neytendum fyrir nægum og öruggum matvælum sem komi til móts við kröfur þeirra um hollustu og gæði
· tryggi sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda
· styrki félagslega og efnahagslega þróun byggðanna og fjölgi atvinnutækifærum með fjölbreyttari framleiðslu og þjónustu
· tryggi fæðuöryggi bæði heima fyrir og á heimsvísu
Sérstakur fundur var haldinn um hollustu og gæði landbúnaðarframleiðslunnar, en í mörgum aðildarríkjanna fer ástandið versnandi, sérstaklega með tilliti til Salmonellu smits og annarrar matareitrunar ásamt aukinni notkun hormóna, fúkkalyfja og vaxtarhvetjandi efna.
Litið er á samþykktir fundarins sem fyrsta framlag og ramma utan um WTO (GATT) viðræðurnar sem hefjast formlega seinnihluta árs 1999. Að mati ráðuneytisins rennir samþykkt ráðherranna styrkari stoðum undir stefnu íslenskra stjórnvalda í landbúnaðarmálum og möguleika þess að hægt sé að framgylgja henni í framtíðinni. Telja verður sennilegt að í næstu WTO-umræðum sé líklegra nú en áður að fram náist samsvarandi viðurkening á hinu fjölþætta hlutverki landbúnaðarins.
Landbúnaðarráðuneytinu 11. mars 1998