Nr. 04/1997
Fréttatilkynning nr. 04/1997
Tilkynning frá landbúnaðarráðuneytinu
Landbúnaðarráðuneytið hefur í samvinnu við Bændasamtök Íslands gefið út kynningarmyndband fyrir ferðaþjónustuaðila um íslenska náttúru og íslenskan landbúnað.
Á myndbandinu, sem er um 12 mínútna langt, er íslenskur landbúnaður og framleiðsla landbúnaðarafurða við íslenskar aðstæður kynntur sem einstakur. Lögð er áhersla á samspil ómengaðrar náttúru og hreinleika afurðanna. Með frásögninni er m.a. bent á að það er ekki einungis ósnortin fegurð náttúrunnar sem dregur ferðamenn til landsins, heldur er full ástæða til þess að heimsækja Ísland til að kynnast þeim landbúnaðarafurðum sem þar eru framleiddar.
Myndbandið er hægt að nálgast í landbúnaðarráðuneytinu og hjá Upplýsinga-þjónustu landbúnaðarins, fyrir þá sem áhuga hafa á því að nota það við kynningarstörf. Myndbandið hefur nú þegar verið sent nokkrum aðilum til kynningar og hafa Flugleiðir hf. ákveðið að sýna myndbandið í flugvélum sínum.
Reykjavík, 19. júní 1997
Landbúnaðarráðuneytið