Nr. 04/1999
Fréttatilkynning frá landbúnaðarráðuneytinu nr. 4/1999
Ísland í hópi 13 þjóða sem vara við alfrjálsum
milliríkjaviðskiptum með búvörur
Fulltrúar landbúnaðarráðuneytisins sátu fund í síðustu viku í Noregi til undirbúnings væntanlegum viðræðum innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar WTO um milliríkjaverslun með landbúnaðarvörur. Fyrsti samningur þess efnis tók gildi 1. júlí 1995, en með honum var opnað fyrir takmarkaðan innflutning unninna og ferskra matvæla til Íslands. Fundurinn var haldinn að frumkvæði Norðmanna og fjallaði um mikilvægi þess fjölbreytta hlutverks sem landbúnaður gegnir í þjóðfélaginu auk þess að framleiða matvæli og trefjar. Var einkum fjallað um þá þætti landbúnaðar sem ekki eru viðskiptalegs eðlis og varað við hættu sem steðjað gæti að viðkvæmum og erfiðum svæðum, ef um of væri slakað á tollum og annarri vernd fyrir samkeppni frá öðrum betur settum svæðum.
Við undirbúning WTO-viðræðnanna hafa myndast tveir aðalhópar sem greinir á um þessi atriði. Þjóðir í hópnum sem aflétta vilja öllum tollum og vernd eru þær sem eru stórútflytjendur matvæla, s.s. Nýja-Sjáland, Ástralía, Kanada, Argentína, Brasilía og Chile. Afstaða Bandaríkjanna er enn óljós. Hinn hópurinn á fundinum í Noregi vill leggja áherslu á mikilvægi landbúnaðar við m.a. varðveislu og viðhald byggða til sveita, varðveislu og vernd umhverfis og landslags og fæðuöryggi.
Fundinn í Noregi sóttu auk Íslands og Noregs, fulltrúar frá Austurríki, Belgíu, Finnlandi, Frakklandi, Þýskalandi, Grikklandi, Indlandi, Japan, Póllandi, S-Kóreu og Sviss. Auk þess sóttu fundinn fulltrúar frá Evrópusambandinu og OECD. Mörg erindi voru flutt á fundinum og fjölluðu þau um hlutverk landbúnaðar í umhverfisvernd, sköpun atvinnutækifæra til sveita, fæðuöryggi við ýmsar aðstæður, s.s. náttúruhamfarir, styrjaldir o.fl. og hvernig móta ætti stefnu fyrir landbúnaðinn, þar sem saman færi markaðs- og viðskiptaumhverfi og annað framlag landbúnaðar til þjóðfélagsins. Ákveðið var að þessar þjóðir héldu áfram óformlegu samstarfi við undirbúning fyrir WTO-viðræðurnar, en formlegar viðræður þátttökuþjóðanna eiga að hefjast í Seattle í nóvember n.k.
Það er umhugsunarefni að þau sjónarmið sem Ísland hefur kynnt við undirbúning WTO-viðræðnanna á sviði landbúnaðar ganga þvert á þau sjónarmið sem Ísland hefur nýlega kynnt, ásamt fimm öðrum þjóðum, á sviði alþjóðaviðskipta í sjávarútvegi. Annars vegar að uppræta öll höft og viðskiptahindranir í milliríkjaviðskiptum með fisk og fiskafurðir og hins vegar að varna því að íslenskar sveitir fari í eyði og landbúnaður leggist af, ef losað er um of um takmarkanir á innflutningi landbúnaðarvara. Ísland virðist eiga öflugar bandalagsþjóðir við bæði sjónarmiðin, en sendinefnd Íslands á ekki létt hlutverk fyrir höndum að tryggja framgang tveggja gjörólíkra sjónarmiða í komandi WTO-viðræðum.
Landbúnaðarráðuneytinu, 15. mars 1999