Hoppa yfir valmynd
8. október 1999 Matvælaráðuneytið

Nr. 06/1998

Fréttatilkynning frá landbúnaðarráðuneytinu nr. 6/1998



Starfsleyfi til Vottunarstofunnar Túns ehf.


Mánudaginn 27. apríl n.k. mun Guðmundur Bjarnason, landbúnaðarráðherra afhenda Vottunarstofunni Túni ehf. formlegt starfsleyfi til að annast eftirlits- og vottunarþjónustu fyrir lífræna framleiðslu. Ennfremur mun fulltrúi Löggildingarstofu afhenda Túni skírteini sem staðfestir faggildingu félagsins. Tún er fyrsta fyrirtæki sinnar tegundar hér á landi, sem fær starfsleyfi og faggildingu.

Faggilding Vottunarstofunnar Túns ehf. felur í sér staðfestingu á hæfni fyrirtækisins til að annast vottun samkvæmt reglugerð um lífræna landbúnaðarframleiðslu. Vottunarstofan þarf að fullnægja ströngum samevrópskum kröfum um stjórnun vottunarkerfisins, gæðakerfi, fyrirkomulag úttekta, úttektarmenn, skýrslugerð, meðferð kvartana og trúnað, svo dæmi séu tekin. Faggildingarsvið Löggildingarstofu annaðist mat á starfsemi vottunarstofunnar og hefur síðan árlegt eftirlit með því að reglum sé fylgt. Faggilding er forsenda fyrir veitingu starfsleyfis landbúnaðarráðherra.

Lífræn framleiðsla byggist á vel skilgreindum aðferðum sem allar miða að því að bændur og fyrirtæki framleiði heilnæmar afurðir án þess að valda tjóni á umhverfinu. Í lífrænni ræktun er lagt kapp á að efla lífríki jarðvegsins með skiptiræktun, jarðgerð, notkun lífrænna áburðarefna og stjórnun beitarálags. Notaðar eru lífrænar varnir og náttúrulyf og lögð áhersla á dýravelferð. Við meðferð og vinnslu lífrænna hráefna er þeim haldið aðskildum frá öðrum afurðum og notkun aukaefna og íblöndunarefna er haldið innan strangra marka.

Vottun lífrænna afurða á sér rætur í áratuga þróunarstarfi framleiðenda og fræðimanna á sviði lífræns landbúnaðar. Vottun er forsenda markaðssetningar slíkra afurða og víðast hvar hafa nú verið settar sérstakar lagareglur um lífræna framleiðslu og starfsemi vottunaraðila á því sviði. Íslensk stjórnvöld hafa fylgst náið með þessari þróun og sett sambærilegar reglur þar að lútandi.

Vottunarstofan Tún ehf. var stofnuð árið 1994 og er í eigu nokkurra sveitarfélaga, stofnana og fyrirtækja. Tún gefur út handbók um aðferðir við lífræna ræktun og vinnslu afurða. Sl. tvö ár hefur félagið annast vottun slíkrar framleiðslu samkvæmt tímabundinni heimild meðan unnið var að faggildingu. Félagið hefur nú vottað á þriðja tug bænda og fyrirtækja, sem framleiða flestar algengustu tegundir íslenskra landbúnaðarafurða, þ.e. grænmeti, kryddjurtir, kartöflur, korn, garðplöntur, mjólk og sauðfjárafurðir. Vottunarkerfi Túns nær til allra tegunda landbúnaðarframleiðslu, þar með talið garðyrkju, kornræktar, búfjárræktar og fiskeldis. Það tekur einnig til alls ferils afurðanna frá framleiðslu bóndans til fullunninna afurða.






Afhending starfsleyfis og faggildingarskírteinis til Vottunarstofunnar Túns ehf. fer fram mánudaginn 27. apríl á Hótel Íslandi, Ármúla 9 í Reykjavík, og hefst athöfnin kl. 16:00.

Fjölmiðlum er hér með boðið að senda fréttamann og ljósmyndara til athafnarinnar.

Nánari upplýsingar veita:

Níels Árni Lund, deildarstjóri í landbúnaðarráðuneytinu, s. 560 9750;
Ársæll Þorsteinsson, framkvstj. faggildingarsviðs Löggildingarstofu, s. 568 1122;
Gunnar Á. Gunnarsson, framkvstj. Vottunarstofunnar Túns efh., s. 487 1389 / 487 1293.



Landbúnaðarráðuneytinu 24. apríl 1998

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta