Hoppa yfir valmynd
8. október 1999 Matvælaráðuneytið

Nr. 09/1997

Fréttatilkynning nr. 09/1997


Tilkynning frá landbúnaðarráðuneytinu


Á undanförnum árum hafa nokkrar nefndir á vegum landbúnaðarráðherra, auk Búnaðarþings, lagt áherslu á að auka þurfi samþættingu og samræmingu í rannsóknum, leiðbeiningum og fagmenntun í landbúnaði til að bæta afkomu í atvinnugreininni. Að undanförnu hefur sérstakur starfshópur á vegum landbúnaðarráðherra mótað tillögur um framkvæmd þessarar stefnu. Starfshópurinn leggur til að stofnanakerfi landbúnaðarins verði skipulagt í þremur stofnunum á svipaðan hátt og í sjávarútvegi og iðnaði hvað hlutverk varðar:

"Búnaðarháskólinn" annist allar rannsóknir, leiðbeiningar og fræðslu á sviði landbúnaðar og nýtingar náttúruauðlinda. Undir stofnunina heyri meginhluti verkefna Rannsóknastofnunar landbúnaðarins, Bændaskólans á Hvanneyri, Bændaskólans á Hólum, Garðyrkjuskólans á Reykjum, landsráðunauta, Veiðimálastofnunar, Hagþjónustu landbúnaðarins, Rannsókna-stöðvarinnar á Mógilsá, rannsókna Landgræðslu ríkisins og þess hluta Tilraunastöðvarinnar á Keldum sem heyrir undir yfirdýralækni. Stofnunin verði ríkisstofnun.

Búnaðarháskóli eins og nefndin leggur til að myndaður verði með samruna þeirra stofnana sem að framan greinir, hefði burði til að vera faglega og fjárhagslega sterk og heildstæð stofnun. Gert er ráð fyrir deildaskiptingu og verkefnastýringu eftir því sem hentar hverju verksviði.

Þrennt markar skólanum mikla sérstöðu. Í fyrsta lagi mun skólinn starfrækja starfsmenntadeild á framhaldsskólastigi og endurmenntunardeild. Hliðstætt fyrirkomulag má finna í Bændaskólanum á Hvanneyri samkvæmt núverandi skipulagi skólans, í Tækniskólanum og Samvinnuháskólanum á Bifröst. Einnig er slíkt fyrirkomulag þekkt í háskólum erlendis. Í öðru lagi er rannsóknahlutverk skólans mjög umfangsmikið og víðfeðmt og í þriðja lagi er skólanum ætlað það meginhlutverk að sinna þörfum heillar atvinnugreinar, fyrir fagþekkingu og þróun.

Gert er ráð fyrir að skólinn starfi á þeim stöðum sem núverandi stofnanir eru nú á og því mun þessi samrumi ekki krefjast búferlaflutninga starfsmanna stofnananna en gefa þeim á hinn bóginn möguleika á tilflutningi í störfum milli starfsstöðva. Nýlegir samstarfssamningar RALA og Hvanneyrar gera ráð fyrir gagnkvæmum vinnurétti/skyldu á þessum stofnunum. Starfshópurinn gerir ráð fyrir að höfuðstöðvar hinnar nýju stofnunar verði á Hvanneyri.

Starfshópurinn telur að "Búnaðarháskólinn" hafi meiri burði til þess að rækja hlutverk sitt á sviði rannsókna og keppa um innlent og erlent rannsóknafé og hæfustu starfskrafta en þær stofnanir sem nú starfa fyrir landbúnaðinn á þessu sviði. Auknir möguleikar skapast til að sinna stærri rannsóknaverkefnum, bregðast á virkari hátt við rannsóknakröfum atvinnugreinarinnar og eiga virkt samstarf við aðrar innlendar og erlendar vísinda- og háskólastofnanir.

"Landrækt Íslands" annist vörslu og þróun þeirrar auðlindar sem gróðurinn, gróðurþekjan og landið er. Stofnunin taki við meginhluta verkefna Landgræðslu ríkisins, Skógræktar ríkisins og héraðabundinna landgræðslu- og skógræktarverkefna. Stofnunin verði ríkisstofnun.

"Búnaðarstofa" hafi með höndum eftirlit og stjórnsýslu í landbúnaði. Stofnunin taki við meginhluta verkefna Yfirdýralæknis, Veiðimálastjóra, Yfirkjötmats og Aðfanga-eftirlits, auk stjórnsýsluverkefna frá Framleiðsluráði landbúnaðarins, Rannsókna-stofnun landbúnaðarins, Bændasamtökum Íslands og e.t.v. fleiri aðilum. Einnig verði flutt til stofnunarinnar ýmis stjórnsýslu- og eftirlitsverkefni sem landbúnaðarráðunehtið nú sinnir. Stofnunin verði ríkisstofnun.

Landbúnaðarráðherra hefur ákveðið að fela starfshópnum að halda áfram vinnu við þann hluta nefndarálitsins, sem fjallar um stofnun "Búnaðarháskóla" með gerð lagafrumvarps um það efni, ásamt því að gera úttekt á helstu rekstrar- og framkvæmdaþáttum sem slíka breytingu varða. Jafnframt hefur ráðherra ákveðið að láta fara fram úttekt á fyrirkomulagi eftirlits og stjórnsýslu sem undir landbúnaðarráðuneytið fellur.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta