Hoppa yfir valmynd
8. október 1999 Matvælaráðuneytið

Nr. 15/1998

3

Fréttatilkynning nr. 15/1998
frá landbúnaðarráðuneyti, sjávarútvegsráðuneyti og utanríkisráðuneyti


Alþjóðafæðudagurinn
16. október 1998

Haldið er upp á Alþjóðafæðudaginn 16. október ár hvert, en þann dag árið 1945 var Alþjóða matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) stofnuð í Quebec í Kanada.

Árið 1986 hélt frú Vigdís Finnbogadóttir, þá forseti Íslands, aðalræðuna á Alþjóðafæðudaginn í aðalstöðvum FAO í Róm.

FAO hefur sent frá sér eftirfarandi upplýsingar um Alþjóðafæðudaginn 1998: Þema Alþjóðafæðudagins í ár er "Konur fæða heiminn" og er þetta 53. afmælisdagur FAO sem haldið er uppá. Þetta þema á að leggja áherslu á það mikilvæga hlutverk sem konur gegna í að tryggja matvælaöryggi í heiminum. FAO heldur uppá þennan dag með því að skipuleggja sjónvarpsdagsskrár um allan heim og standa útsendingar yfir frá föstudeginum 16. október til sunnudagsins 18. október. Þessar dagskrár leggja áherslu á hlutverk kvenna í matvælaframleiðslu og fæðuöryggi heimilanna, og benda sérstaklega á hið fjölbreytta hlutverk kvenna í landbúnaðarframleiðslu og úrvinnslu og meðferð afurðanna sem og markaðsmálum. Spurt er hvort þetta þema sé rétt.

Ef litið er á staðreyndir málsins kemur í ljós að á heimsvísu framleiða konur meira en helming allra matvæla. Í suðurhluta Afríku og við Karabíska hafið framleiða konur nær 80% af nauðsynlegum matvælum. Í Asíu sjá þær um framleiðslu 50-90% hrísuppskerunnar. Í SA-Asíu og á Kyrrahafssvæðinu sem og í rómversku Ameríku er framleiðsla kvenna í heimagörðum ákaflega flókið framleiðsluferli. Í hinum nýju sjálfstæðu ríkjum Austur-Evrópu er hlutfall kvenna sem vinnur að landbúnaðarstörfum um það bil 1/3 í Bosníu og Herzegoviníu og meira en 50% í Póllandi. Í flestum þróunarlöndum heims eru það aðallega konur sem vinna að landbúnaðarstörfum, allt frá því að yrkja jörðina og til þess að annast uppskeruna. Að loknum uppskerustörfum bera konur aðalábyrgð á því að koma afurðunum í geymslu, úrvinnslu og sölu.

Konur til sveita bera aðalábyrgðina á næringu barna, frá því að brjóstfæða þau og til fullorðinsára. Þar að auki eru konur aðalframleiðendur matvæla og að undirbúa máltíðir fyrir fjölskylduna.

Þrátt fyrir þetta mikilvæga hlutverk kvenna við fæðuöflun, er sjaldan minnst á starf þeirra þegar rætt er um þróunarverkefni í landbúnaði. Framlags þeirra er sjaldan getið í skýrslum og skrám. Af því leiðir að framlagi kvenna er sýndur lítill skilningur og iðulega vanmetið. Það eru margar ástæður til þess. Heimilisstörf eru oftast talinn hluti af skyldu kvenna sem eiginkvenna og mæðra og fremur litið á þær sem vinnuafl, bæði á heimilum og fyrir þjóðarbúskapinn. Mjög mikið af vinnuframlagi kvenna utan heimilisins, hvort sem það er allt árið eða hluta úr árinu, er ólaunað og þess vegna ekki skráð í opinberum skýrslum.

Í flestum löndum eiga konur ekki það land sem þær rækta. Lög og venjur vegna erfða og eignarhalds eru mjög óréttlát gagnvart konum. Land sem konur eiga er oftast svo lítið og svo lítils virði að það fer ekki inn í opinberar skrár. Þar að auki bera konur yfirleitt ábyrgð á þeirri fæðu sem notuð er á heimilinu frekar en á matvælum sem seld eru á markaðnum. Þar sem karlmenn eru yfirleitt skráðir í forsvari fyrir heimilum, er ekki tekið tillit til kynferðis þegar skráðar eru upplýsingar um matvælaframleiðslu.

Allt það sem að ofan greinir hefur orðið til þess að auka fátækt meðal kvenna. Síðan 1970 hefur fjöldi kvenna sem búa undir fátæktarmörkum aukist um 50%, til samanburðar 30% fyrir karlmenn. Þó að það sé satt að konur fæði heiminn í dag, þá er óvíst, miðað við þær hindranir sem settar eru í vegi þeirra og lýst er að ofan, að þær geti fætt þá þrjá milljarða manna sem búist er við að bætist við til ársins 2030.

Á fundi þjóðarleiðtoga um matvælaöryggi sem haldinn var í aðalstöðvum FAO 1996 komu saman þjóðarleiðtogar frá 186 löndum. Þeir skrifuðu undir Rómar-yfirlýsinguna um fæðuöryggi í heiminum og sérstaka áætlun til að tryggja fæðuöryggi í heiminum. Þessar samþykktir lögðu sérstaklega áherslu á hlutverk kvenna í landbúnaði og matvælaöryggi til þess að skapa hvetjandi stjórnmálalegt, félagslegt og hagfræðilegt umhverfi, sem þyrfti til þess að eyða hungri og fátækt í heiminum.

Í samþykktum sínum á leiðtogafundinum skuldbundu ríkisstjórnir sig til þess:

· Að styðja og koma í framkvæmd þeim samþykktum sem gerðar voru á 4. heimsráðstefnu kvenna, þ.e. að jafnræðis sé gætt í öllum stefnumarkandi ákvörðunum.
· Að hvetja til þess að konur taki virkan og jafnan þátt í þórun hagkerfisins, sem þýðir að þær hafi aðgang og stjórn á lánum, landi og vatni.
· Að tryggja að allar stofnanir veiti jafnan aðgang fyrir konur og karla.
· Að kvenfólk hafi jafnan aðgang og karlar til menntunar og þjálfunar í matvælaframleiðslu, meðferð og sölu.
· Að miða leiðbeiningar og þjónustu við konur sem stunda störf við framleiðslu matvæla og auka fjölda kvenna sem leiðbeinenda.
· Að bæta söfnun og dreifingu á upplýsingum sem taka tillit til kynferðis.
· Að auka rannsóknir á hlutverkaskiptingu á heimilinu, tekjuöflun og stjórnun.
· Að safna upplýsingum um þekkingu kvenna og hæfni í landbúnaði, sjávarútvegi, skógrækt og í verndun og stjórnun á náttúruauðlindum.

Stefnuskrá FAO fyrir þátttöku kvenna í þróunarverkefnum 1996-2001 tryggir að tekið verði tillit til þátttöku kvenna í störfum stofnunarinnar. Eitt af markmiðunum er að veita konum jafnan aðgang og körlum að landi og öðrum auðlindum og jafna stjórn yfir þeim, auka þátttöku þeirra í ákvörðunartöku og stefnumótun, minnka vinnuálag þeirra og auka tækifæri þeirra til þess að afla sér launaðrar vinnu og tekna.

Með þema Alþjóðafæðudagsins, "Konur fæða heiminn", er stefnt að því að sýna fram á að þegar konum er veittur aðgangur að auðlindum, verða þær öflugir þátttakendur í þróunarstarfsemi, duglegar, úrræðagóðar og opnar fyrir nýjungum. Við náttúruhamfarir hafa þær sýnt fram á að þær eru fljótar að aðlaga sig aðstæðum í umhverfinu, yfirvinna erfiðleika og að nota til þess tæknina. Þær hafa sinnt mikilvægu hlutverki í að fæða hratt vaxandi mannfjölda heimsins og án þeirra er óhugsandi að vinna bug á þeim erfiðleikum sem steðja að fæðuöryggi næstu aldar.

Alþjóðafæðudagurinn í ár á að minna ríkisstjórnir og þjóðfélagsþegna á skyldu þeirra til að standa við loforð sem gefin voru á leiðtogafundinum um fæðuöryggi. Alþjóðafæðudagurinn kallar á karla og konur til að axla þá ábyrgð að tryggja matvælaöryggi og fæðu handa öllum á næstu öld. Til þess að þemað "Konur fæða heiminn" verði enn í gildi á næstu öld, þarf að leggja áherslu á að útilokað er að standa við þessi loforð ef orka og þátttaka helmings mannkynsins er ekki beisluð.

Landbúnaðarráðuneytinu,
sjávarútvegsráðuneytinu og
utanríkisráðuneytinu,

14. október 1998

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta