Nr. 22/1998
Fréttatilkynning frá landbúnaðarráðuneytinu nr. 22/1998
Hlutafjáraukning og sala hlutabréfa til starfsmanna Stofnfisks hf.
Stofnfiskur hf. er leiðandi fyrirtæki í kynbótum og hrognaframleiðslu á Íslandi. Félagið hefur á undanförnum árum byggt upp þekkingu og viðskiptasambönd á þessu sviði og hafið útflutning á hrognum samhliða sölu á hrognum og seiðum innanlands. Starfsemi félagsins er að verulegu leyti byggð á samningum til lengri tíma og hefur velta félagsins farið ört vaxandi. Stofnfiskur hf. stendur nú frammi fyrir áhugaverðum valkostum í starfsemi sinni.
Á undanförnum mánuðum hefur Framkvæmdanefnd um einkavæðingu í umboði landbúnaðarráðuneytis, undirbúið sölu á hlutabréfum ríkissjóðs í Stofnfiski hf. Einnig hefur nefndin í samstarfi við stjórn Stofnfisks hf. skoðað hvernig fjármagna bæri áframhaldandi vöxt félagsins, t.d. með sölu á nýju hlutafé. Til ráðgjafar hefur fyrirtækjasvið Íslandsbanka hf. starfað með nefndinni og skilað af sér tillögum um fyrirkomulag sölu.
Vegna fyrirhugaðrar einkavæðingar félagsins hefur Framkvæmdanefnd um einkavæðingu látið gera úttekt á rekstri fyrirtækisins og rekstrarumhverfi þess ásamt því að verðmat á fyrirtækinu hefur farið fram. Er þetta í samræmi við verklagsreglur um einkavæðingu.
Ákveðið hefur verið að í fyrsta áfanga sem hefst í janúar n.k., verði boðið út nýtt hlutafé að nafnvirði 40 milljónir kr. Útboðið fer þannig fram að leitað verður tilboða og verður hæsta tilboði tekið fyrst og síðan koll af kolli. Ekki verður tekið lægri tilboðum en á genginu 1,4. Hver bjóðandi getur gert tilboð í fulla fjárhæð útboðsins. Samhliða hlutafjárútboði félagsins verður starfsmönnum þess boðið að kaupa hlutabréf í félaginu af hlut ríkissjóðs. Hverjum starfsmanni verður boðið að kaupa hlut fyrir allt að 500 þúsund kr. að nafnverði á genginu 1,4.
Meginmarkmiðið með hlutafjáraukningunni og sölu á hlut til starfsmanna er að treysta enn frekar rekstrargrundvöll fyrirtækisins, auka fjármagn í rekstri og nýta þannig sóknarfæri sem framundan eru hjá fyrirtækinu.
Stærsti hluthafi Stofnfisks hf., Íslenska ríkið, á nú 93,6% hlutafjár í félaginu. Ef það hlutafé, sem nú er boðið til sölu, selst allt, þ.e. 40 m.kr. að nafnverði, mun eignarhlutur Íslenska ríkisins verða 50,5% og allt niður í um 40% ef starfsmenn félagsins nýta til fulls framangreint tilboð um kaup á hlutabréfum í eigu ríkisins.
Hvað varðar frekari sölu Íslenska ríkisins á eignarhlut sínum þá hefur landbúnaðarráðuneytið fyrir hönd ríkisins lýst því yfir að ætlunin sé, í kjölfar hlutafjáraukningarinnar, að bjóða allan eignarhlut ríkisins til sölu. Hvenær það verður ræðst meðal annars af áhuga fjárfesta nú, en stefnt er að því að það verði ekki síðar en í árslok 1999. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um fyrirkomulag á þeirri sölu.
Íslandsbanki hf. mun hafa umsjón með hlutafjárútboði félagsins og sölu til starfsmanna og fer sala fram í janúar. Frekari upplýsingar um sölu og kynningu verður auglýst síðar.
Í landbúnaðarráðuneytinu, 23. desember 1998