Hoppa yfir valmynd
14. október 1999 Utanríkisráðuneytið

Nr. 087, 14. október 1999. Þróunarmálaráðherrar Norðurlandanna.

FRÉTTATILKYNNING

frá utanríkisráðuneytinu

________




Nr. 087



Ísland tekur beinan þátt í niðurfellingu skulda fátækustu ríkja heims -
Norðurlöndin einhuga í stuðningi við HIPC-átakið






Að tillögu Halldórs Ásgrímssonar, utanríkisráðherra, hefur verið ákveðið að Ísland taki beinan þátt í fjármögnun HIPC-átaksins svonefnda, en það felst í niðurfellingu skulda fátækustu ríkja heims. Áætlað er að hlutur Íslands verði u.þ.b. 200 milljónir króna. HIPC-átakið er afar brýnt, enda standa skuldir þróunarríkjanna framförum þeirra á efnahagssviðinu fyrir þrifum, þar eð stór hluti afraksturs af árangursríku þróunarstarfi fer í að greiða afborganir og vexti af eldri skuldum. Markmið átaksins er að rjúfa þennan vítahring skuldasöfnunar og gera um leið frekari þróunaraðstoð markvissari. Með yfirlýsingu Íslands um beina þátttöku standa Norðurlöndin öll að átakinu.

Þetta kom fram á fundi þróunarmálaráðherra Norðurlanda sem haldinn var á Hótel Sögu í morgun. Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, sat fundinn fyrir Íslands hönd. Ráðherrarnir voru einhuga í stuðningi sínum við átakið til að fella niður skuldir fátækustu ríkja heims og fögnuðu því að aðstoð við þróunarríki nyti meiri og vaxandi stuðnings. Þeir voru bjartsýnir á að þjóðum heims tækist að fjármagna HIPC-átakið og lögðu í því sambandi áherslu á það fordæmi sem Norðulöndin gæfu með sinni þátttöku. Þau hafa öll afráðið að standa skil á sínum hlut og vel það. Þannig geta Norðurlöndin beitt önnur iðnríki þrýstingi til að leggja sitt af mörkum til átaksins. Fram kom á fundinum, að ástæða væri til að vera á varðbergi gagnvart því, að framlög til átaksins gætu hugsanlega bitnað á annarri þróunarsamvinnu.

Norðurlöndin ráðgera að auka framlög sín til þróunarmála á næstu árum, enda þótt þau hafi um árabil verið í fararbroddi á því sviði og lagt stærri skerf til aðstoðar við fátæk ríki en flest önnur iðnríki. Opinber framlög Íslendinga til þróunarmála munu þrefaldast á næstu fimm árum samkvæmt þeim áætlunum sem fyrir liggja.

Á ráðherrafundinum hafði Halldór Ásgrímsson framsögu um sjálfbæra nýtingu sjávarauðlinda. Hann benti á þann vanda sem ýmis þróunarríki standa frammi fyrir þegar iðnríki, meðal annars Evrópusambandsríki, setja fiskveiðikvóta fyrir eigin skip innan lögsögu ýmissa þróunarríkja sem skilyrði fyrir aðgangi að eigin mörkuðum. Með þessu telur hann að þróunarríkjum sé stillt upp við vegg og að þeim sé óbeint meinað að nýta eigin auðlindir eins og þau sjálf helst kjósa.

Á ráðherrafundinum var einnig fjallað umhverfismál frá sjónarhóli fátækra ríkja, baráttu gegn spillingu í löndum sem njóta þróunaraðstoðar, fjárhagsvanda Þróunaráætlunar Sameinuðu þjóðanna og fleira.

Nánari upplýsingar um HIPC-átakið má finna á heimasíðu Alþjóðabankans www.worldbank.org/hipc



Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 14. október 1999.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta