Hoppa yfir valmynd
18. október 1999 Utanríkisráðuneytið

Nr. 090, 18. okóber 1999. Opinber heimsókn Halldórs Ásgrímssonar til Úkraínu.

FRÉTTATILKYNNING

frá utanríkisráðuneytinu

________


Nr. 090

Í dag hófst opinber heimsókn Halldórs Ásgrímssonar utanríkisráðherra og formanns ráðherranefndar Evrópuráðsins til Úkraínu ásamt Walter Scwhimmer framkvæmdastjóra Evrópuráðsins. Utanríkisráðherra átti í morgun fund með Borys Tarasyuk utanríkisráðherra Úkraínu þar sem rædd voru tvíhliða samskipti landanna. Ræddu ráðherrarnir m.a. mögulegt samstarf ríkjanna á sviði viðskipta og nýtingu jarðhita í Úkraínu en tveir Úkraínumenn sækja nám við jarðhitaskóla S.þ. á Íslandi á næsta ári.

Ráðherrarnir ræddu einnig málefni Atlantshafsbandalagsins, Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE), stækkun Evrópusambandsins (ESB) og málefni Sameinuðu þjóðanna en Úkraína hlaut kosningu í Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna síðastliðinn fimmtudag.

Eftir hádegi í dag mun utanríkisráðherra ásamt framkvæmdastjóra Evrópuráðsins m.a. eiga fundi með Valeriy Pustovoitenko forsætisráðherra Úkraínu og Susanna Stanik dómsmálaráðherra Úkraínu. Á þessum fundum verður rætt um skuldbindingar Úkraínu sem aðildarríki að Evrópuráðinu en Úkraína varð aðildarríki að því árið 1995. Úkraína hefur ekki ennþá uppfyllt mikilvæg skilyrði vegna aðildarinnar og má þar nefna skilyrði um afnám laga um dauðarefsingu og staðfestingu samnings Evrópuráðsins um tungumál minnihlutahópa.

Jafnframt mun utanríkisráðherra eiga fundi með Olexandre Tkachenko forseta þings Úkraínu ( Verkhovna Rada ) ásamt formönnum stjórnmálaflokka í Úkraínu.

Á morgun mun Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra ásamt framkvæmdastjóra Evrópuráðsins eiga fundi með Leonid Kuchma forseta Úkraínu og Leonid Borodych ráðherra innanríkismála.

Sverrir Haukur Gunnlaugsson ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins og Kornelíus Sigmundsson sendiherra Íslands í Úkraínu, með aðsetur í Finnlandi, sátu einnig ofangreinda fundi.



Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 18. október 1999.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta