Sameiginleg fréttatilkynning utanríks-, dóms- og kirkjumálaráðuneyta
FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu og
dóms- og kirkjumálaráðuneytinu
_______
Fyrr í dag stýrði Gunnar Snorri Gunnarsson sendiherra Íslands hjá Evrópusambandinu fundi samsettu nefndarinnar á vettvangi Schengen samstarfsins. Í nefndinni eiga sæti háttsettir embættismenn en Ísland gegnir formennsku í nefndinni til 31. desember n.k.
Samsetta nefndin var sett á fót með samningi Evrópusambandsins (ESB) og Íslands og Noregs um þátttöku ríkjanna tveggja í framkvæmd, beitingu og þróun Schengengerða en samningurinn var undirritaður í Brussel 18. maí s.l. Kemur nefndin saman á vettvangi sérfræðinga, þar sem það aðildarríki ESB sem gegnir formennsku í sambandinu á hverjum tíma fer með forystu. Auk þess kemur nefndin saman á vettvangi háttsettra embættismanna og að lokum ráðherra en á þessum stigum skiptast samningsaðilar á að gegna formennsku. Kom í hlut Íslands að gegna formennskunni fyrstu sex mánuðina en um áramót munu Portúgalir taka við og að því búnu Norðmenn.
Hlutverk samsettu nefndarinnar er að fjalla um þau atriði sem framangreindur samningur Íslands og Noregs tekur til.
Fund nefndarinnar sátu auk sendiherra Íslands og Noregs, sendiherrar allra aðildarríkja ESB eða fulltrúar þeirra. Á dagskrá þessa fyrsta fundar undir formennsku Íslands var undirbúningur undir fund nefndarinnar á vettvangi ráðherra en hann verður haldinn í Luxemborg föstudaginn 29. þ.m. Mun dómsmálaráðherra Íslands stýra þeim fundi. Var dagskrá þess fundar samþykkt og fylgir hún hjálagt.
Utanríkisráðuneytið,
dóms- og kirkjumálaráðuneytið