Nr. 098, 29. október 1999. Ræða fastafulltrúa á allsherjarþingi S.Þ. um réttindi barna.
FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
________
Nr. 098
Fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum, Þorsteinn Ingólfsson, flutti í gær ræðu um réttindi barna á allsherjarþinginu. Fastafulltrúinn minntist þess að í ár eru liðin 10 ár frá samþykkt alþjóðasamningsins um réttindi barna. Hann lagði áherslu á að hagsmunir barna yrðu tryggðir á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og á nauðsyn þess að gera hagsmuni og réttindi barna að órjúfanlegum hluta stefnumótunar stofunarinnar, sérstaklega á sviði þróunarmála. Í ræðunni var vakin athygli á því að fátækt væri oft á tíðum orsök barnaþrælkunar og kynferðislegrar misnotkunar á börnum í viðskiptaskyni. Viðurkennt væri að menntun gegndi mikilvægu hlutverki til að útrýma þessum alvarlegu brotum á réttindum barna.
Fastafulltrúinn sagði að í ljósi aukins flutnings fólks á milli landa væri að sama skapi aukning á því að börn þyrftu að glíma við nám á framandi tungu í nýju landi. Afleiðingin væri sú að staða þessara barna væri oft lakari en annarra barna. Nauðsynlegt væri að huga að þessu máli, sérstaklega í ljósi aukins mikilvægis menntunar ekki aðeins fyrir einstaklinginn sem slíkan heldur fyrir þjóðfélagið í heild.
Loks var lögð áhersla á mikilvægi þess að börn séu höfð með í ráðum í málum sem þau varða og ítrekuð afstaða Íslands um að hækka beri lágmarksaldur aðila sem taka mega þátt í hernaði.
Ræða fastafulltrúa fylgir hjálagt.
Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 29. október 1999.