Reglur um styrki til lagningar nýrra hitaveitna á köldum svæðum
Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti
Nr. 18/1999
Iðnaðarráðherra hefur í dag sett reglur um styrki til lagningar nýrra hitaveitna á köldum svæðum. Reglurnar eru í samræmi við ákvörðun ríkisstjórnarinnar frá því í vor um að hrinda í framkvæmd þeirri heimild sem er í þingsályktun um stefnu í byggðamálum 1999-2001 til að nýta það fé sem ætlað er til niðurgreiðslu rafhitunar í fimm ár til þess að lækka stofnkostnað nýrra hitaveitna. Samkvæmt fjárlögum þessa árs og frumvarpi til fjáraukalaga er gert ráð fyrir að verja 90 millj. kr. til þessa verkefnis á árinu.
Samkvæmt reglunum er gert ráð fyrir að hitaveitur sem hófu rekstur á árinu 1998 og síðar - komi til greina varðandi styrkveitingar enda starfi þær á svæðum sem notið hafa niðurgreiðslna á raforku til húshitunar. Fjárhæð styrksins getur numið allt að þeirri fjárhæð sem varið er til niðurgreiðslna á orkuveitusvæði viðkomandi hitaveitu á 5 ára tímabili. Frá styrkfjárhæðinni verður þó dreginn annar beinn eða óbeinn fjárhagslegur stuðningur ríkisins, stofnana þess eða sjóða til viðkomandi hitaveitu eða undirbúnings hennar. Ekki er gert ráð fyrir að niðurgreiðslurnar verði reiknaðar til núvirðis.
Ef hluti íbúðarhúsnæðis á orkuveitusvæði er ekki tengdur þegar hitaveita tekur til starfa er heimilt að semja um aðlögunartíma í allt að 9 mánuði. Hluta styrksins verður þá haldið eftir til að mæta áætluðum niðurgreiðslum á aðlögunartímanum. Með þessu móti er annars vegar tekið tillit til þess að óframkvæmanlegt er að tengja öll hús strax við nýja hitaveitu og hins vegar komið í veg fyrir að verið sé að niðurgreiða rafhitun eftir að styrkur hefur verið veittur til viðkomandi hitaveitu.
Samkvæmt reglunum er lögð áhersla á að styrkfjárhæðin verði að hluta notuð til að greiða niður kostnaðarsamar breytingar íbúðareigenda til að tengjast hitaveitu og að hluta til að greiða niður stofnkostnað. Stjórn viðkomandi veitu þarf að leggja fram upplýsingar um það hvernig styrknum verði skipt en samkvæmt reglunum getur hvor hluti um sig ekki numið meira en 65% af heildarstyrkfjárhæðinni.
Umsóknir um styrk ber að senda iðnaðarráðuneytinu en sérstök nefnd skipuð fulltrúum frá iðnaðarráðuneyti, fjármálaráðuneyti og Orkustofnun gerir tillögur til ráðherra um afgreiðslu umsókna.
Reykjavík, 2. nóvember 1999.