Nr. 101, 4. nóvember 1999. Lok formennsku Íslands hjá Evrópuráðinu.
FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
________
Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra og formaður ráðherranefndar Evrópuráðsins stýrði í dag utanríkisráðherrafundi Evrópuráðsins í Strassborg, Frakklandi. Þetta var síðasti fundurinn á formennskutímabili Íslands í ráðherranefnd Evrópuráðsins en eftir fundinn tók Írland við formennsku í ráðherranefndinni.
Helsta umræðuefni utanríkisráðherrafundarins var þátttaka Evrópuráðsins í stöðugleikasáttmála fyrir Suðaustur-Evrópu (Stability Pact). Utanríkisráðherra áréttaði mikilvægi Evrópuráðsins við að tryggja varðveislu mannréttinda, eflingu lýðræðis og réttarríkis á svæðinu. Evrópuráðið hefði að hans mati mikilvægu hlutverki að gegna í uppbyggingarstarfinu í Kosovo við eflingu mannréttinda og lýðræðisþróunar í nánu samstarfi við stofnanir á borð við Evrópusambandið (ESB) og Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE). Sérstakir samráðsfundir Evrópuráðsins með ESB og ÖSE voru haldnir í formennskutíð Íslands í ráðherranefnd Evrópuráðsins um samstarf stofnananna.
Utanríkisráðherrarnir áréttuðu mikilvægi þess að Sambandsríki Júgóslavíu og Hvíta-Rússland virtu grundvallarreglur mannréttinda, lýðræðis og réttarríkisins. Umsóknir beggja þessara ríkja um aðild að Evrópuráðinu hafa verið lagðar til hliðar vegna stjórnmálaástands í þeim. Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra greindi jafnframt frá niðurstöðum óformlegs fundar utanríkisráðherranna með Bernard Kouchner sérstökum fulltrúa Sameinuðu þjóðanna í Kosovo sem haldinn var í gærkvöldi. Að lokum ræddu ráðherrarnir um hið alvarlega ástand í Tsjetsjníu.
Utanríkisráðherra sat einnig sérstakan samráðsfund ráðherranefndar Evrópuráðsins og Evrópuráðsþingsins. Þar var aðallega rætt um stöðugleikasáttmálann fyrir Suðaustur-Evrópu. Á fundinum greindi utanríkisráðherra jafnframt frá heimsókn sinni og Walter Schwimmer framkvæmdastjóra Evrópuráðsins til Úkraínu 18.-19. október sl.
Utanríkisráðherra átti í dag tvíhliða fundi með David Andrews utanríkisráðherra Írlands, Borys Tarasyuk utanríkisráðherra Úkraínu og Mihai-Razvan varautanríkisráðherra Rúmeníu.
Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 4. nóvember 1999.