Aðalfundur LÍÚ 5. október 1999
Ráðherra breytir reglum um útflutningsálag á óunninn fisk.
Sjávarútvegsráðherra tilkynnti á fundi Landssambands íslenskra útvegsmanna í dag breytingar á reglum um útflutningsálag á óunninn fisk
Frá upphafi kvótakerfis 1984 hefur verið lagt álag á óunninn botnfisk, sem fluttur hefur verið á erlendan markað Fyrsta árið tók það aðeins til þess fisks, sem fiskiskip sigldu með, en á árinu 1985 var það látið taka til alls óunnins fisks, sem fluttur var á erlendan markað.
Í upphafi var ástæðan sú að þegar afli viðmiðunaráranna var fundinn, fengu skip 25% álag á þann fisk, sem þau höfðu siglt með á viðmiðunarárunum. Var þetta ákveðið vegna þeirra tafa, sem þau höfðu orðið fyrir vegna siglinganna og eins vegna þess að reynslan sýndi, að afli sem landað var erlendis vóg að jafnaði nokkru minna vegna rýrnunar og vigtunaraðferða. Með því að reikna álag á afla þeirra eftir að kvótakerfinu var komið á var talið, að skipin væru í óbreyttri stöðu til að halda áfram sama veiði- og siglingamunstri.
Eftir því sem lengra líður frá upphafsárum kvótakerfsins verður röksemda um álagið síður leitað í þessu. Með ákvörðun um álag á síðari árum hefur verið stefnt að því að hafa áhrif á, hve mikið væri flutt út af óunnum fiski, þá var eitthvert álag talið eðlilegt vegna þeirrar rýrnunar á fiskinum, sem verður við útflutning og vegna mismunandi vigtareglna hér og erlendis.
Í gildandi reglugerð er álagið 20% á þorsk, 15% á ýsu, ufsa, karfa og grálúðu en 10% á skarkola, steinbít, langlúru, þykkvalúru, skrápflúru og sandkola. Hefur álagið að mestu verið óbreytt frá 1991 nema hvað það var lækkað úr 20% í 15% á ýsu á fiskveiðiárinu1997/1998.
Breytingin sem ákveðin er, er að þeir sem flytja út óunninn fisk geti valið um, hvort þeir vigta fiskinn endanlega hér á landi, samkvæmt þeim reglum sem um það gilda, eða hvort þeir láta vigta hann erlendis á þeim mörkuðum sem leyfi hafa til slíks. Sé fiskurinn vigtaður endanlega hér á landi ber hann ekkert álag, en sé hann vigtaður erlendis beri allar botnfisktegundir, aðrar en þorskur, 10% álag þegar frá upphafi yfirstandandi fiskveiðiárs. Þorskur sem hins vegar hefur borið 20% lækki í 17% frá 1. september sl. en síðan í 15% frá upphafi næsta fiskveiðiárs og loks í 10% á fiskveiðiárinu 2001/02. Helstu ástæður eru:
- Nauðsynlegt er að nýta alla markaði fyrir fisk og fiskafurðir og að markaður fyrr óunninn fisk getur oft verið mjög hagkvæmur.
- Nokkur vandi hefur verið varðandi eftirlit með útflutninig á óunnum fiski og ósamræmi í lögum, reglum eða framkvæmd á því á hvaða fisk álagið hefur komið.
- Nauðsynlegt er vegna rýrnunar í flutningi og vegna mismunandi vigtunarreglna hér á landi og erlendis, að 10% álag komi á þann fisk, sem ekki er vigtaður hér á landi.
Í ræðu sinni gerði ráðherra skipan endurskoðunarnefndar að umræðuefni, hann fjallaði einnig um árangur stjórnkerfis fiskveiða, um kvótaþingið, siðareglur sjávarútvegsins og upplýsingamál, auk væntanlegs tvíhliða samnings við Rússa um samvinnu á sjávarútvegssviðinu. Sé óskað eftir að fá ræðuna í heild hafið þá vinsamlega samband við Jónu í síma 5609676.
Sjávarútvegsráðuneytið
5. nóvember 1999
5. nóvember 1999