Siv Friðleifsdóttir til Stokkhólms
Fréttatilkynning
Þann 7. nóvember n.k. mun Siv Friðleifsdóttir, umhverfisráðherra og norrænn samstarfsráðherra, halda til Stokkhólms þar sem hún mun sitja 51. þing Norðurlandaráðs sem sett verður að morgni 9. nóvember.
Siv Friðleifsdóttir mun taka þátt í almennum umræðum og fjárlagaumræðum á þinginu sem formaður norrænu samstarfsráðherranna. Einnig mun ráðherra sækja fund norrænu samstarfsráðherranna, þar sem norrænu fjárlögin verða til umræðu og ákvarðanatöku, og fund norrænu umhverfisráðherranna.
Í tilefni þess að tíu ár eru liðin frá því að norræna umhverfismerkið, Svanurinn, var tekið í notkun mun ráðherra kynna merkið á fréttamannafundi sem haldinn verður þriðjudaginn 9. nóvember kl. 16.00. Meira en þúsund vörutegundir eru nú merktar svaninum og stöðugt fleiri bætast í hópinn. Umhverfismerkið tryggir strangt umhverfiseftirlit allt framleiðsluferlið.