Nr. 104, 10. nóvember 1999 Baltneskir flugumferðastjórar í þjálfun á Íslandi
FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
________
Nr. 104
Fimm flugumferðarstjórar frá Eystrasaltsríkjunum, Eistlandi, Lettlandi og Litháen sækja nú, að frumkvæði utanríkisráðherra, tveggja vikna námskeið í flugumferðarstjórn á vegum flugmálastjórnar Íslands. Flugmálastjórn annast undirbúning og framkvæmd námskeiðahaldsins sem er hluti af tvíhliða aðstoð Íslands við uppbyggingarstarf í ríkjunum þremur.
Tilurð málsins má rekja til utanríkisráðherrafundar Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna í Västerås í Svíþjóð 31. ágúst 1998 þar sem Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, kynnti áform um stuðning Íslands við Eystrasaltsríkin á sviði flugumferðarstjórnar. Á því sviði byggi Ísland, að hans mati, yfir mikilli sérþekkingu sem mikilvægt væri að miðla á alþjóðlegum vettvangi. Á fundinum var utanríkisráðherrum Eystrasaltsríkjanna afhent formlegt boð af hálfu utanríkisráðherra Íslands um þátttöku á námskeiðahaldi á Íslandi í samvinnu við flugmálastjórn Íslands.
Á yfirstandandi námskeiði er flugumferðarstjórunum meðal annars kynnt starfsemi flugstjórnarmiðstöðvarinnar á Reykjavíkurflugvelli, starfsemi flugmálastjórnar Íslands, starfsaðferðir við þróun ratsjárkerfa og sjálfvirk flugstjórnarkerfi. Einnig hafa þátttakendur farið í kynnisferðir til Flugkerfa, almannavarna ríkisins og í varnarstöð Atlantshafsbandalagsins í Keflavík.
Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 10. nóvember 1999.