Hoppa yfir valmynd
16. nóvember 1999 Utanríkisráðuneytið

Nr. 108, 16. nóvember 1999 Tólfti fundur EES-ráðsins

FRÉTTATILKYNNING

frá utanríkisráðuneytinu




Nr. 108

Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, sat í gær tólfta fund EES-ráðsins. Í EES-ráðinu sitja utanríkisráðherrar aðildarríkja evrópska efnahagssvæðisins ásamt fulltrúum framkvæmdastjórnar ESB.

Í yfirlýsingu fundarins kemur fram að framkvæmd EES-samningsins gangi vel. Ánægju var lýst yfir áframhaldandi víðtækri þátttöku EES/EFTA ríkjanna við þróun gerða þegar mál eru í vinnslu innan framkvæmdastjórnarinnar og þeirri von var lýst að þessi þátttaka yrði aukin eftir því sem kostur er þar sem hún stuðlaði að eflingu EES-samningsins. Áréttað var mikilvægi þess að EES-EFTA ríkin fengju reglulega upplýsingar um stækkunarferli Evrópusambandsins.

EES-EFTA ríkin komu á framfæri athugasemdum varðandi magn díoxíns í matvörum og sögðust vera ötulir stuðningsaðilar öflugs gæðaeftirlits með matvörum og sögðust styðja beitingu varúðarreglunnar í sambandi við dýraheilbrigði. Hins vegar þyrfti að gæta meðalhófs þegar gripið væri til aðgerða og styðja þyrfti aðgerðir með vísindalegum upplýsingum og taka tillit til allra kringumstæðna.

Utanríkisráðherra kom á framfæri athugasemdum Íslands um að þrátt fyrir að full fríverslun með fisk væri í gildi í EES-EFTA ríkjunum, væri slík fríverslun ekki gagnkvæm þar sem Evrópusambandið viðhefði ennþá tolla á sumum fisktegundum frá EES-EFTA ríkjunum. Hann taldi að kanna þyrfti hvort svigrúm væri til staðar fyrir aukna fríverslun með fisk.

Í tengslum við fund ráðsins var að venju haldinn sérstakur fundur ráðherra EES-ríkjanna þar sem skipst var á skoðunum um pólitísk málefni. Til umræðu var öryggisstofnskráin, ástandið í Tsjetsjníu og á Balkanskaga og norðlæg vídd Evrópusambandsins.

Að þessu sinni var utanríkisráðherrum Íslands og Noregs ásamt öðrum utanríkisráðherrum aukaaðildarríkja Vestur-Evrópusambandsins, þ.e. frá Tyrklandi, Póllandi, Ungverjalandi og Tékklandi, einnig boðið að taka þátt í kvöldverði utanríkisráðherra Evrópusambandsins þar sem rætt var um breyttar aðstæður í varnarmálum Evrópu eftir eflingu varnar- og öryggissamstarfs innan Evrópusambandsins.








Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 16. nóvember 1999.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta