Sameiginleg fréttatilkynning utanríkisráðuneytis, landbúnaðarráðuneytis og sjávarútvegsráðuneytis um kjör Íslands til setu í stjórn FAO 19. nóvember 1999
FRÉTTATILKYNNING
frá
utanríkisráðuneyti.
landbúnaðaráðuneyti og sjávarútvegsráðuneyti
Ísland var í dag kjörið til setu í stjórn Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, FAO, til þriggja ára. Kosningar fóru fram á aðalráðstefnu FAO, sem nú stendur yfir í höfuðstöðvum stofnunarinnar í Róm. Tekur Ísland þar með í fyrsta sinn sæti í stjórn FAO með stuðningi annarra Norðurlanda. Í tengslum við setuna í stjórninni hefur verið skipaður sérstakur staðarfulltrúi Íslands í Róm til að sinna þar daglegum störfum. Fastafulltrúi Íslands hjá stofnuninni er sendiherra Íslands í París.
FAO var sett á laggirnar árið 1945 með það að markmiði að vinna gegn hungri, bæta lífskjör, efla framleiðni í landbúnaði og bæta aðstæður fólks í dreifbýli. FAO er nú stærsta sérstofnun Sameinuðu þjóðanna með 180 aðildarríki.
Störf FAO á sviði landbúnaðar og sjávarútvegs eru Íslendingum sérstaklega mikilvæg. Í því sambandi má nefna umræður um sjálfbæran landbúnað og byggðaþróun, sérstöðu landbúnaðar í heimsviðskiptum og skynsamlega nýtingu sjávarauðlinda í krafti öflugrar fiskveiðistjórnunar.
Guðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra, og formaður íslensku sendi-nefndarinnar, lagði ríka áherslu á þessa þætti í ávarpi sínu. Í ljósi mikilvægis FAO fyrir Ísland skýrði landbúnaðarráðherra frá þeirri ákvörðun ríkisstjórnar Íslands að bjóða FAO að halda alþjóðlega ráðstefnu um Sjálfbærar fiskveiðar í vistkerfinu á Íslandi haustið 2001. Leitast verður við að fjalla um flestar hliðar fiskveiða, þátt þeirra í fæðuöflun mannkyns og áhrif þeirra á vistkerfi jarðar. Jafnframt verður stefnt að því að ná samstöðu um leiðandi stefnuyfirlýsingu um sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda og ábyrga fiskveiðistjórnun.
Reykjavík, 19. nóvember 1999.