Nr. 114, 25. nóvember 1999 Heimsókn Lord Robinsons, aðalframkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins
FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
________
Nr. 114
George Robertson, lávarður, aðalframkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, kemur í opinbera heimsókn til Íslands í dag, ásamt fylgdarliði. Aðalframkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins situr kvöldverðarboð Davíðs Oddssonar, forsætisráðherra, í Ráðherrabústaðnum í kvöld.
Í fyrramálið mun George Robertson, lávarður, eiga samráðsfund með Davíð Oddssyni, forsætisráðherra, og Halldóri Ásgrímssyni, utanríkisráðherra, þar sem málefni Íslands og Atlantshafsbandalagsins verða efst á baugi. Ennfremur munu þeir ræða Evrópusamstarf um öryggis- og varnarmál og hagsmuni Íslands og annarra aukaaðildarríkja Vestur-Evrópusambandsins.
George Robertson gegndi áður embætti varnarmálaráðherra Bretlands í ríkisstjórn Anthony Blair, forsætisráðherra. Nýr aðalframkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins tók við embætti 14. október síðastliðinn, af Spánverjanum Javier Solana.
Efnt verður til blaðamannafundar í forsætisráðuneytinu, stjórnarráðshúsinu við Lækjartorg í kjölfar samráðsfundarins með forsætisráðherra og utanríkisráðherra og hefst hann kl. 10 árdegis, föstudaginn 26. nóvember 1999.
Æviágrip George Robertson, lávarðar, er að finna á heimasíðu NATO (http:\\www.nato.int/cv/secgen/robert-e.htm).
Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 25. nóvember 1999.