Nr. 116, 29. nóvember 1999Blaðamannafundur v. fundar WTO í Seattle
FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
Nr. 116
Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, efndi í gær til blaðamannafundar í Seattle, við upphaf ráðherrastefnu Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO), sem stendur yfir þessa dagana. Tilgangur fundarins var að kynna fjölmiðlum tillöguflutning Íslands á vettvangi WTO um afnám ríkisstyrkja í sjávarútvegi.
Á fundinum rakti utanríkisráðherra efnislega tillögu Íslands á vettvangi WTO. Hún felur í sér að stofnaður verði sérstakur vinnu-og samningahópur um ríkisstyrki í sjávarútvegi, í tengslum við hina nýju lotu samningaviðræðna um alþjóðaviðskipti, sem ráðherrastefnunni er ætlað að ýta úr vör. Gert er ráð fyrir að settar verði reglur á vettvangi WTO, sem takmarki beitingu ríkisstyrkja, sem stuðla að rányrkju og ofveiði, hamli viðskiptum og samkeppni og feli í sér óæskileg áhrif á umhverfið. Þannig verði stuðlað að sjáfbærri þróun og skynsamlegri nýtingu fiskistofna. Loks er lagt til að verkefni þetta verði unnið í nánu samstarfi við Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO). Tillaga Íslands er í uppkasti að texta ráðherrayfirlýsingarinnar í Seattle og nýtur hún víðtæks stuðnings. Um 30 ríki hafa lýst stuðningi við málefnið á vettvangi WTO.
Blaðamannafundinn sátu fulltrúar Argentínu, Ástralíu, Bandaríkjanna, Noregs, Nýja Sjálands og Filippseyja, en þessi ríki hafa verið dyggustu stuðningsríki tillögurnnar. Þá tók framkvæmdastjóri World Wildlife Fund einnig þátt í fundinum. Fulltrúar allra þessara aðila fluttu yfirlýsingar á fundinum sem fólu í sér eindreginn stuðning við málefnið og voru ráðherra jafnframt færðar þakkir fyrir að hafa sýnt fumkvæði í þessum efnfum á vettvangi WTO. Þess má geta að fyrir hönd Bandaríkjanna var á fundinum William Daley viðskiptaráðherra.
Fulltrúar á um þriðja tug fjölmiðla, einkum frá Bandaríkjunum, mættu á blaðamannafundinn.
Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 30. nóvember 1999.