Hoppa yfir valmynd
1. desember 1999 Forsætisráðuneytið

Lok formennskuárs Íslendinga í Norrænu ráðherranefndinni

Fréttatilkynning


Norðurlandaskrifstofa forsætisráðuneytis
Reykjavík 1. desember 1999


Lok formennskuárs Íslendinga í Norrænu ráðherranefndinni

Endahnúturinn á formennsku Íslands í Norrænu ráðherranefndinni verður rekinn í Reykjavík í næstu viku en þá heldur Siv Friðleifsdóttir, umhverfisráðherra og norrænn samstarfsráðherra setningarávarp á ráðstefnu Norrænu ráðherranefndarinnar um Norður-Atlantshafssvæðið sem verður haldin 6.-7. desember n.k. Siv stýrir sínum síðasta fundi sem formaður samstarfsráðherra Norðurlanda sem haldinn verður í Reykjavík í kjölfar ráðstefnunnar þann 8. desember.

Efni ráðstefnunnar er í samræmi við þá stefnu sem Ísland hefur fylgt á formennskuári sínu um að setja í fyrirrúm hagsmuni, líf og kjör þeirra er byggja norðlæg svæði og að auka samstarf Norðurlandanna við vestlæg grannlönd. Ráðstefnuna munu sækja fulltrúar frá Norðurlöndunum, Skotlandi, Orkneyjum, Shetlandseyjum og Suðureyjum ásamt fulltrúum frá Nýfundnalandi, Labrador og Nova Scotia. Á ráðstefnunni verður rætt um umhverfismál hafsins, þróun eysamfélaga og smárra samfélaga, ferðamennsku sem og fjarkennslu og fjarlækningar. Einnig verður skipst á skoðunum um frekara samstarf Norðurlanda við önnur lönd og landssvæði við Norður-Atlantshaf.

Á fundi samstarfsráðherranna verður á dagskrá samstarf Norðurlanda við grannsvæðin kringum Eystrasalt og samstarf um málefni Norðurskautssvæðisins. Einnig gerir Marianne Jelved, samstarfsráðherra Danmerkur, grein fyrir áætlunum Dana fyrir samstarfið á næsta ári en Danir taka við formennsku í norrænu samstarfi af Íslendingum um næstu áramót. Ráðherrarnir ræða og um stefnu í upplýsingamálum norræna samstarfsins sem hafa verið til endurskoðunar. Lagt er til að vefsíður Norrænu ráðherranefndarinnar og Norðurlandaráðs verði bættar og sniðnar að þörfum notenda. Einnig hefst á fundinum undirbúningur að gerð norrænna fjárlaga fyrir árið 2001.

Rástefnuna um Norður-Atlantshafssvæðið sækja í allt 35-40 aðilar, þeirra á meðal eftirtaldir ráðherrar: Siv Friðleifsdóttir, umhverfisráðherra og norrænn samstarfsráðherra, Høgni Hoydal, ráðherra í landsstjórn Færeyja og Walter Noel, kanadískur ráðherra í fylkisstjórn Nýfundnalands.

Fundur samstarfsráðherra verður haldinn í A-sal á Hótel Sögu miðvikudaginn 8. desember kl. 8.30-11.30 og hann sitja eftirtaldir ráðherrar: Siv Friðleifsdóttir, umhverfisráðherra og norrænn samstarfsráðherra, Marianne Jelved, efnahagsráðherra og norrænn samstarfsráðherra Danmerkur, Høgni Hoydal, ráðherra í landsstjórn Færeyja og norrænn samstarfsráðherra, Jonathan Motzfeldt, formaður landsstjórnar Grænlands og norrænn samstarfsráðherra og Jan Erik Enestam, varnarmálaráðherra og norrænn samstarfsráðherra Finnlands.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta