Nr. 119, 3. desember 1999 Haustfundur varnarmálaráðherra Atlantshafsbandalagsins í Brussel.
![]() |
![]() |
FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
________
Nr. 119
Haustfundur varnarmálaráðherra aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins var haldinn í Brussel 2. desember sl.
Á fundinum var helst fjallað um ástand og horfur í Kosóvó og Bosníu-Hersegóvínu, þ.m.t. starfsemi alþjóðlegu öryggissveitanna (KFOR) og stöðugleikasveita bandalagsins (SFOR). Fjallað var um samskipti bandalagsins við Rússland og Úkraínu og lýst áhyggjum vegna þróunar mála í norðurhluta Kákasus-héraðs. Í því samhengi var fjallað um afvopnunarmál, m.a. aðlögun og framkvæmd samningsins um hefðbundinn herafla í Evrópu (CFE). Lögð var áhersla á frumkvæði til eflingar varnargetu bandalagsríkja (DCI) og vísað til væntanlegrar ákvarðanatöku innan Evrópusambandsins um aukna varnargetu aðildarríkja þess sem mikilvægs þáttar í viðleitni bandalagsins. Lýst var vonum um nánara samstarf bandalagsins og ESB á sviði öryggis- og varnarmála.
Á fundinum og í undirbúningi hans lögðu fulltrúar Íslands áherslu á nauðsyn heildstæðrar framkvæmdar ákvarðana leiðtogafundar bandalagsins í Washington D.C. um Evrópusamstarfið á sviði öryggis- og varnarmála. Það fæli m.a. í sér að samkvæmni þyrfti að vera í annars vegar ákvarðanatöku bandalagsins um hugsanlegan aðgang ESB að búnaði og liðsafla þess og hins vegar ákvarðanatöku ESB um þátttökurétt bandalagsríkja utan sambandsins í mótun og framkvæmd sameiginlegrar evrópskrar öryggis- og varnarmálastefnu. Miklu skipti að niðurstöður fyrirhugaðs leiðtogafundar ESB í Helsinki tryggðu slíka samkvæmni.
Í fjarveru utanríkisráðherra, Halldórs Ásgrímssonar, sátu fundinn fyrir Íslands hönd Gunnar Pálsson, fastafulltrúi hjá Atlantshafsbandalaginu, og Benedikt Ásgeirsson, skrifstofustjóri varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins.
Hjálagt eru yfirlýsingar funda varnarmálaráðherra og varnaráætlananefndar bandalagsins.

Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 3. desember 1999.